Markalaust í leikjum Suðurnesjaliðanna í annarri deild karla
Tveir leikir fóru fram í gær í annarri deild karla í knattspyrnu. Í Sandgerði tóku Reynismenn á móti Haukum og þá mættust Þróttur og Njarðvík sem eru bæði í toppbaráttunni. Engin mörk voru skoruð í leikjunum og breyttist staða liðanna því lítið.
Þróttur - Njarðvík (0:0)
Leik Þróttar og Njarðvíkur hafði verið beðið með talsverðri eftirvæntingu en báðum þessum liðum var spáð upp í næstefstu deild á næsta ári. Fyrir leikinn sátu Þróttarar í efsta sæti með 27 stig en Njarðvík í því þriðja með 21 stig. Fyrri leikur liðanna fór fram í fyrstu umferð deildarinnar og þá skildu liðin jöfn, hvort lið skoraði þrjú mörk. Sama var upp á teningnum í gær nema nú voru engin mörk skoruð.
Þróttur er sem fyrr á toppi deildarinnar en Njarðvík er komið í annað sæti með jafnmörg stig og KV sem leikur gegn Magna á morgun, laugardag. Með sigri getur KV komist í 25 stig og þá munar aðeins þremur stigum á þeim og Þrótti.
Reynir - Haukar (0:0)
Reynir tók á móti Haukum úr Hafnarfirði á sama tíma og leikur Þróttara og Njarðvíkinga fór fram. Bæði Reynir og Haukar eru um miðja deild og mátti búast við jöfnum leik, sem varð raunin.
Reynismenn missti fyrirliða sinn, Strahinja Pajic, út af með rautt spjald á 76. mínútu en það kom ekki að sök, hvorugu liði tókst að skora. Niðurstaða jafntefli sem gerir lítið fyrir liðin, Reynir er í áttunda sæti með sextán stig en Haukar tveimur sætum fyrir ofan þá með nítján stig.