Markalaust gegn Fram
Keflvíkingar gerðu markalaust jafntefli við Framara, í heldur bragðdaufum leik á Laugardalsvelli í dag. Keflvíkingar áttu fleiri færi í leiknum og hefði Gestur Gylfason getað klárað hann snemma þegar hann komst einn á móti Fjalari, markverði Framara. Gestur kom knettinum þó ekki framhjá Fjalari í það skiptið, frekar en aðrir leikmenn Keflavíkur í leiknum. Þrátt fyrir að Keflvíkingar væru meira með boltann, voru þeir alls ekki nógu beittir í sóknaraðgerðum sínum og uppskáru því aðeins þetta eina stig. Liam O´Sullivan, skoski leikmaðurinn í liði Keflvíkinga hélt uppi varnarleik liðsins og lék mjög vel í leiknum, en aðrir leikmenn voru afar misjafnir og náðu sjaldan að sýna sitt rétta andlit.Framarar áttu fáar sóknir, en fengu þó nokkur góð færi, sem þeir náðu ekki að nýta.Keflvíkingar eru nú komnir með 11 stig og sitja í fjórða sæti deildarinnar, aðeins stigi á eftir Fylki og nágrönnum sínum, Grindvíkingum.