Markalaus grannaslagur í Grindavík
Grindvíkingar og Keflvíkingar skildu jafnir, 0-0, eftir leik liðanna í Grindavík í kvöld. Bæði lið áttu ágætar sóknir í leiknum, en engin þeirra gaf af sér mark. Þetta er fyrsta stigið sem Keflvíkingar fá á Grindavíkurvelli í 5 ár og mega þeir því vel við una að hafa þó náð þeim árangri, enda hafa Grindvíkingar ekki enn fengið á sig mark á heimavelli í sumar. Grindvíkingar byrjuðu betur í leiknum og voru mun meira með boltann, en sterk vörn Keflvíkinga ríghélt og náðu heimamenn því ekki að skapa sér hættuleg færi. Í síðari hálfleik komu Keflvíkingar mjög sterkir til leiks og áttu fín færi, sem þeir náðu þó ekki að nýta, enda léku þeir aftarlega á vellinum og sóttu á fáum mönnum. Hjörtur Fjeldsted komst nálægt því að skora fyrir gestina þegar hann skaut góðu skoti fyrir utan vítateig, en boltinn fór rétt yfir mark Grindvíkinga.Grindvíkingar fengu kjörið tækifæri til að komast yfir í leiknum þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Róbert Sigurðsson skaut hörkuskoti að marki Keflvíkinga og boltinn stefndi í bláhornið, en Gunnleifur Gunnleifsson í marki Keflvíkinga varði með glæsilegum hætti þetta hættulegasta skot heimamanna í leiknum. Grindvíkingar eru nú í fjórða sæti Landssímadeildarinnar með 20 stig, jafnt og ÍBV, sem hefur leikið einum leik fleiri. Toppsætið er ekki langt undan, en þar sitja Fylkismenn með 22 stig. Keflvíkingar eru í 6. Sæti deildarinnar með 16 stig.