María Tinna á verðlaunapall í Dublin
María Tinna Hauksdóttir úr Reykjanesbæ náði um helgina ásamt dansfélaga sínum, Gylfa Má Hrafnssyni, þeim frábæra árangri að lenda í 3. sæti í heimsmeistaramóti ungmenna í ballroom dönsum. Mótið fór fram í Dublin á Írlandi.
Þau María Tinna og Gylfi Már eru bæði 17 ára gömul og hafa verið danspar í fimm og hálft ár. Þau eiga mjög flottan dansferil saman og nú árið 2019 hefur verið einstaklega gott með tveimur Íslandsmeistaratitlum og bikarmeistaratitlum, ásamt frábærum árangri erlendis þar sem þau hafa iðulega komist í úrslit.
Framundan er heilmikið hjá þeim. Í janúar er stórmót í Bretlandi og í Milano á Ítalíu. Þá er Evrópumót um páskana og svo eitt stærsta mót ársins í Blackpool í Englandi í vor ásamt keppnum hér heima.