María Ben til Grindavíkur
Þær gulu ógnarsterkar í vetur
Keflvíkingurinn María Ben Erlingsdóttir mun á komandi tímabili spila með Grindvíkingum en í dag var skrifað undir samning þess eðlis. Miðherjinn María er uppalin í yngri flokkum Keflavíkur en hún lék síðast með Valsstúlkum í efstu deild á Íslandi árið 2011. Í fyrra lék hún í Frakklandi.
Grindvíkingar eru aldeilis búnir að styrkja sig en Pálína Gunnlaugsdóttir gekk einnig til liðs við þær gulklæddu í sumar. Pálína hefur undanfarin ár verið að öðrum ólöstuðum besti íslenski leikmaður deildarinnar.
Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Grindvíkinga kvaðst í samtali við Karfan.is vera sáttur með að María væri komin í liðið og sagði að hópur hans væri nú klár í veturinn. „María er þekkt stærð í þessari deild og öflugur leikmaður. Við auðvitað búumst við miklu af henni í vetur líkt og frá öllum öðrum leikmönnum okkar. Við spilum á morgun við Keflavík en það er óvíst hvort hún verði samt með í þeim leik.“ sagði Jón Halldór í viðtali við Karfan.is.