María Ben Erlingsdóttir semur við Val
María Ben Erlingsdóttir hefur samið við nýliða Vals í Iceland Express-deild kvenna í körfuknattleik og mun hún leika með liðinu næsta vetur. María sem lék með Keflvíkingum áður en hún hélt í háskólanám árið 2007 hefur verið fastamaður í Landsliði Ísland frá árinu 2004 og á að baki 30 A-landsleiki. Þegar María lék síðast með Keflvíkingum tímabilið 2006-2007 þá var hún með 17,2 stig og 6,0 fráköst að meðaltali í leik. Keflvíkingar hefðu sennilega viljað njóta krafta Maríu þar sem miðherjinn Bryndís Guðmundsdóttir einn að lykilmönnum liðsins í fyrra gekk til liðs við KR á dögunum. María hefði hæglega getað fyllt skarðið sem Bryndís skilur eftir sig í teig Keflvíkinga en eflaust hafa margir búist við því að María snéri aftur í herbúðir Keflvíkinga eftir dvölina erlendis.
Myndir: María í leik með háskólaliði sínu Texas Pan American og svo árið 2006 þar sem hún var valin körfuknattleikskona ársins hjá Keflavík.