Margrét nældi í silfur á Norðurlandamótinu
Sandgerðingurinn Margrét Guðrún Svavarsdóttir hjá Hnefaleikafélagi Reykjaness hafnaði í öðru sæti í -75 kg flokki á Norðurlandamótinu í hnefaleikum sem fram fóru í Danmörku um helgina.
Margrét komst sjálfkrafa í úrslit gegn reynslumiklum sænskum keppanda eftir að annar keppandi þurti frá að hverfa. Eftir þrjár æsispennandi lotur hafði sú sænska sigur en mjótt var á munum. Ekki mátti sjá að Margrét hefði 20 færri bardaga undir belti en andstæðingur sinn. Silfurverðlaun því niðurstaðan hjá hinni ungu og efnilegu Margréti sem var þarna fyrst íslenskra kvenna til þess að etja kappi í þessum þyndarflokki.