Margrét með tvo sigra í frumraun sinni
Hin 18 ára hnefaleikakona keppti í fyrsta sinn gegn fullorðnum
Hin 18 ára hnefaleikakona Margrét Guðrún Svavarsdóttir úr HFR keppti sína fyrstu tvo bardaga í fullorðinsflokki kvenna um helgina. Skemmst er frá því að segja að Margrét fór á kostum og sigraði báðar viðureignir sínar. Fyrri viðureign hennar um helgina var á föstudeginum í Hafnafirði þar sem hún keppti við talsvert reyndari keppanda í Margréti Ásgerði frá Hnefaleikafélaginu ÆSIR. Næst keppti hún á laugardeginum við Sigríði Birnu frá Hnefaleikafélagi Akureyrar á afmælismóti ÆSIR í Reykjavík. Hún fékk mikið lof fyrir þessar frammistöður en andstæðingar hennar voru í reyndari kantinum.
Þetta er góð byrjun á árinu en í næsta mánuði keppir hún á Íslandsmóti í 75kg flokki kvenna. Þar keppir hún aftur gegn Sigríði Birnu og verður spennandi að sjá hverju stöllurnar slá saman þar. Margrét hefur æft með Hnefaleikafélagi í tæp 5 ár og er núna í fyrsta skipti með aldur til að keppa í svokölluðum ELITE flokki.
Suðurnesjamaðurinn Halldór Berg Halldórsson (15) keppti einnig um helgina með góðum árangri. Halldór hefur æft um þriggja ára bil og fór á móti Sólon frá hnefaleikafélaginu ÆSIR. Sá er talsvert reyndari en Halldór en þótti okkar maður eiga fyrstu lotuna í bardaganum. Sólon sótti á og tókst að sigra næstu tvær lotur. Það verður gífurlega spennandi að sjá unga Suðurnesjamanninn í framtíðinni.
Suðurnesjamaðurinn og frumkvöðull hnefaleika á landsvísu, Guðjón Vilhelm, tók sér stöðu sem hringdómari báða daga. Hann hefur dæmt fjölda atvinnubardaga víðsvegar í Evrópu.