Margrét á leiðinni til Svartfjallalands í þjálfaranám
Keflvíkingurinn Margrét Sturlaugsdóttir mun á næstunni halda til Evrópu ásamt tveimur öðrum Íslendingum til að sækja FECC þjálfaranámið. FECC stendur fyrir FIBA Europe Coaching Certificate og er þjálfaranám á vegum FIBA Europe sem spannar þrjú sumur. Margrét mun hefja nám í sumar og klárar 2019.
Íslenskir þjálfarar hafa sótt FECC síðan árið 2009 en fyrsti íslenski þjálfarinn til að útskrifast með FECC þjálfaragráðuna er Njarðvíkingurinn Einar Árni Jóhannsson.
Í samtali við Víkurfréttir segir Margrét það lengi hafa verið ætlunin að sækja um í þetta nám. „Þetta er frábær viðbót við það sem ég er nú þegar með, sem er íþrótta- og sálfræði. Einar Árni, samþjálfari minn hjá KKÍ, talaði vel um þetta nám. Ég hlakka til að fá að tækla þetta, en ég geri mér grein fyrir því að þetta er hörku nám í tvö ár, með lokaritgerð, munnlegu prófi og fleiru.“
Margrét mun hefja námið í Svartfjallalandi þann 13. ágúst næstkomandi.