Margar upprennandi körfuboltastjörnur í körfuskóla KKÍ
Það voru margar ungar og upprennandi körfuboltastjörnur á fjölum Toyota hallarinnar í Keflavík í gær og í dag. Landsliðsþjálfarinn, Sigurður Ingimundarson stýrði þjálfun og kennslu en með honum var góður hópur landsliðsfólks í körfubolta.
Körfuboltaskóli Körfuknattleikssambandsins er í Keflavík og í Smáranum og lýkur seinni partinn í dag. Á námskeiðinu er farið í grunnatriði eins og boltameðferð, skot, sendingar og farið í leiki og keppnir. Þjálfararnir eru landsliðsþjálfarar A-landsliða karla og kvenna auk landsliðsmanna og kvenna sem leiðbeina í körfuboltaskólanum. Það var létt yfir hópnum í morgun. Þjálfararnir slógu á létta strengi enda allt leikmenn héðan frá Suðurnesjum.
Fleiri myndir má sjá í myndagalleríi hér á síðunni.
Þjálfarar og leiðbeinendur í Keflavík í morgun, Hörður Axel, Jóhann, Sigurður, Þorleifur, Bryndís, Jón Norðdal, Páll Axel, og í fremri röð f.v. Sigurður Ingimundarson, Rúnar, Magnús, Ingibjörg, Petrúnella og Íris. VF-myndir/pket.