Marco og Nicolai semja við Keflavík
Knattspyrnumennirnir Marko Kotilainen og Nicolai Jörgensen gerðu í dag eins árs samning við knattspyrnulið Keflavíkur og munu leika með þeim á næstu leiktíð. Marko og Nicolai hafa verið að æfa með Keflavíkurliðinu að undanförnu og sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari liðsins, að leikmennirnir væru til þess fallnir að fylla stöður hægri og vinstri kantmanna sem og vinstri bakvarðar og að liðið hefði verið að leita að styrkleika í þær stöður.
Eins og sakir standa er ekkert því til fyrirstöðu að Keflavíkurliðið tefli fram sama hóp og á síðustu leiktíð að Magnúsi Þormari frátöldum sem genginn er í raðir Stjörnunnar. Enn hafa ekki bortist tilboð í Jónas Guðna Sævarsson og Baldur Sigurðsson sem báðir hafa nýlega verið á reynslu hjá norskum úrvalsdeildarliðum.
Þá skrifaði Símun Samuelsen einnig undir nýjan samning við Keflavík í dag og var samningurinn til tveggja ára. Símun er færeyskur landsliðsmaður og því mikill fengur fyrir liðið að hann hafi ákveðið að framlengja við félagið.
VF-myndir/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]
Marco og Nicolai með Rúnari V. Arnarsyni, formanni KSD Keflavíkur, en á neðri myndinni eru leikmennirnir með Kristjáni Guðmundssyni, þjálfara liðsins.
Á neðstu myndinni er Símun með Oddi Sæmundssyni og Rúnari V. Arnarsyni. Myndina tók Jón Örvar Arason.