Már íþróttamaður ársins
Karen Ásta hlaut Hvataverðlaun Íþróttasambands fatlaðra
Már Gunnarsson var útnefndur íþróttamaður Íþróttasambands fatlaðra árið 2023 og þá var Sonja Sigurðardóttir útnefnd íþróttakona Íþróttasambands ársins og Karen Ásta Friðjónsdóttir hlaut Hvataverðlaun ÍF sem veitt eru einstaklingum, félagasamtökum, stofnun, fyrirtæki eða öðrum aðilium sem á framsækinn hátt hafa unnið í þágu íþróttastarfs fatlaðra á árinu.
Kjörinu var lýst á Grand Hótel við hátíðlega athöfn í gær en þetta er í þriðja sinn sem Már hlýtur nafnbótina íþróttamaður ársins og í fjórða sinn sem Sonja er útnefnd Íþróttakona ársins. Bæði áttu þau magnaða frammistöðu á Heimsmeistaramóti IPC í sundi á þessu ári og halda þau bæði lágmörkum fyrir Paralympics sem fram fara í París 2024.
Már Gunnarsson keppti á heimsmeistaramótinu í sundi sem fram fór í Manchester á árinu. Már er einn af fremstu baksundsmönnum heims og hafnaði í sjötta sæti á mótinu. Már synti þá á tímanum 1:10.72 mínútu sem er steinsnar frá Íslandsmeti hans sem er 1.10.36 mínútu og stendur því enn frá Paralympics í Tokyo 2021. Már er núna í árslok í áttunda sæti heimslistans yfir bestu tíma ársins í 100 metra baksundi S11.
Þetta er í þriðja sinn sem Már hlýtur nafnbótina íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra en hann var fyrst kjörinn árið 2019 og aftur árið 2021 í sögulegu kjöri þar sem hann og Róbert Ísak Jónsson hlutu báðir nafnbótina íþróttamaður ársins fyrir árangur sinn í sundlauginni það árið.
Már hefur náð lágmörkum fyrir Paralympics í París 2024 en á Paralympics þýða lágmörk ekki það sama og að komast inn. Að svo stöddu hafa verðlaunahafar á síðasta heimsmeistaramóti eingöngu fengið keppnisrétt í París en í febrúarmánuði skýrist frekar hverjir hljóta boðið en þá er staða á heimslista og árangur m.a. tekið til skoðunar og sætum úthlutað.
Karen Ásta einn af mikilvægustu liðsmönnum Íþróttasambands fatlaðra
Karen Ásta Friðjónsdóttir hlaut Hvataverðlaun Íþróttasambands fatlaðra 2023 en verðlaunin voru afhent við kjörið á Íþróttafólki ÍF 2023. Hvataverðlaun ÍF eru veitt einstaklingum, félagasamtökum, stofnun, fyrirtæki eða öðrum aðilum sem á framsækinn hátt hafa unnið í þágu íþróttastarfs fatlaðra á árinu
Karen Ásta Friðjónsdóttir er einn af mikilvægustu liðsmönnum Special Olympics á Íslandi og Íþróttasambands fatlaðra. Hún hefur tekið að sér fjölmörg verkefni í sjálfboðavinnu og alltaf verið boðin og búin til aðstoðar, sama hvert umfang verkefna er.
Hún hefur verið liðsmaður Special Olympics á Íslandi, allt frá því að hún kynntist starfinu í gegnum þátttöku sonar hennar á heimsleikum Special Olympics í Aþenu 2011. Hún tók m.a. virkan þátt í að aðstoða við innleiðingu LETR á Íslandi árið 2013 en það byggir á samstarfi Special Olympics á Íslandi og íslensku lögreglunnar. Þar hefur hún aðstoðað eiginmann sinn sem hefur frá upphafi og fram til dagsins í dag stýrt innleiðingu LETR á Íslandi. Karen Ásta er í dag fulltrúi í stjórn Special Olympics á Íslandi og gegnir þar hlutverki fjölskyldufulltrúa.
Special Olympics á Íslandi hefur tekið þátt í tveimur Evrópuverkefnum á árinu, þar sem m.a. var tekið á móti stórum hópum til Íslands. Þar lagði hún fram krafta sína og taldi ekki eftir sér að koma dag eftir dag til að liðsinna og aðstoða við hvert það verkefni sem upp kom.
Karen hefur, ásamt eiginmanni sínum og syni, tekið virkan þátt í kynningarstarfi þar sem sögð er saga sonar hennar. Þar er horft til þess hve mikilvægt það er að gefa öllum tækifæri til íþróttastarfs. Sonur hennar þurfti að takast á við breyttan veruleika eftir slys sem varð þegar hann var ungur að aldri. Gegnum íþróttastarfið hafa skapast ný tækifæri fyrir hann í dag.
Frá þessu er greint á vef Íþróttasambands fatlaðra.