Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Már bætti eigið Íslandsmet
Már stóð sig vel í gær og bætti Íslandsmet sitt í 100 metra flugsundi. Mynd af Facebook-síðu Más
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 18. maí 2021 kl. 09:21

Már bætti eigið Íslandsmet

Sundmaðurinn Már Gunnarsson (ÍRB) keppir nú á Evrópumóti fatlaðra í sundi sem haldið er á Madeira. Í gær var annar keppnisdagur Más og hann gerði sér lítið fyrir og bætti eigið Íslandsmet í 100 metra flugsundi í flokki S11.

Það er ekki hægt að segja að mótið hafi farið vel af stað hjá Má en á fyrsta degi lenti hann í óhappi þegar hann stakk sér til sunds í 50 metra skriðsundi og festi hægri hendina í brautarlínunni. Már sagði í færslu á Facebook: „Það leynast áhættur í öllum íþróttum og þær minnka ekki í íþróttum blindra. Ég stakk mér til sunds í morgun í 50M skriðsundi og ætlaði svo sannarlega að bæta mig en á leiðinni festi hægri hendina í brautarlínunni og í stað þess að stöðva tímatökubúnaðinn á hefðbundinn hátt í innkomunni barði ég í búnaðinn hjá næsta manni á annari braut og stöðvaði minn eiginn tíma með höfuðkúpunni á mér. Sem betur fer virðist ekkert vera brotið, mögulega tognun og má maður vera þakklátur fyrir að ekki verr fór en svo og þá skiptir ekki máli hálf sekúnda til eða frá. Er ekki sagt, fall er farar heill. Þannig lít ég á það fyrir þær fjórar greinar sem eftir eru.“

Með jákvæðni að leiðarljósi átti Már góðan dag í gær þegar hann lenti í  fjórða sæti í 100 metra flugsundi og bætti Íslandsmet sitt sem er nú 01:11:11. Í dag á Már frí frá keppni og segir það vel þegna hvíld fyrir þær þrjár greinar sem eftir eru.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024