Máni fær æskulýðsbikarinn
Hestamannafélagið Máni hlaut nú á dögum hinn eftirsótta Æskulýðsbikar Landssambands Hestamanna. Bikarinn er afhentur ár hvert hestamannafélagi sem skarar fram úr í æskulýðsstarfi og má með sanni segja að Máni hafi gert það í vetur og lítur félagið á bikarinn sem hvatningu til að halda áfram öflugu starfi sínu.
Í æskulýðsdeild Mána starfar frábær hópur fólks sem vinnur í sjálfboðastarfi mjög óeigingjarnt starf í þágu Mána. Nefndin hefur verið gífurlega virk og unnið unnið afkastamikið starf í æskulýðsmálum á þessu ári. Meðal uppákoma sem æskulýðsdeild Mána stóð fyrir á árinu má nefna töltmót, leikjadag, árshátíð fyrir unglinga og ungmenni frá mörgum hestamannafélögum, glæsilega aðkomu að sýningunni Æskan og hesturinn, páskabingó, fjölskyldureiðtúr, utanumhald reiðnámskeiða og heils dags óvissuferð. Auk þessara uppákoma hélt æskulýðsdeildin uppi mjög virkri heimasíðu www.mani.is/aeskulydsdeild
Afhending Æskulýðsbikarsins fór fram á landsfundi formanna hestamannafélaga nú á dögunum. Á aðalfundi hestamannafélagsins Mána afhenti svo formaður Mána, Guðbergur Reynisson, bikarinn æskulýðsdeild Mána síðastliðins árs, þeim Bryndísi Líndal Arnbjörnsdóttur, Gunnari Pétri Róbertssyni, Hauki Aðalsteinssyni og Sigrúnu Pétursdóttur sem vel eru að titlinum komin.
Hestamannafélagið Máni stendur nú í ströngu við að byggja um 2.000 fermetra reiðhöll sem áætlað er að verði tilbúin til notkunar í febrúar á næsta ári. Það er því nokkuð ljóst að félagið heldur áfram að blása til sóknar og er með byggingu hallarinnar að skapa æskulýð Mána sem og öðrum félögum þjálfunaraðstöðu sem best er á kosið.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Guðberg Reynisson, formann hestamannafélagsins Mána afhenda æskulýðsdeild Mána Æskulýðsbikar LH.