Mánamenn stóðu sig vel á LM 2006
Mánamenn gerðu það gott á Landsmóti hestamanna sem fór fram á Vindheimamelum í Skagafirði fyrir skemmstu. Bestum árangri náði Jóhanna Margrét Snorradóttir, en hún hampaði bronsinu í barnaflokki á hestinum Djákna frá Feti. Sannarlega góður árangur hjá þessum unga knapa sem þarna tók þátt í sínu fyrsta landsmóti. Djákni var hins vegar að vinna bronsið í annað sinn, því bróðir Jóhönnu Margrétar, Ásmundur Ernir, vann sömu verðlaun á LM fyrir tveimur árum, einmitt á gæðingnum Djákna.
Camilla Petra Sigurðardóttir varð sjötta í ungmennaflokki á Sporði frá Höskuldsstöðum og Brynjar Þór Guðnason varð þrettándi í barnaflokki á Lind frá Ármóti, en 15. efstu knapar hljóta verðlaun, átta í A-úrslitum og sjö í B-úrslitum og alls tóku á bilinu 70-90 keppendur þátt í hverjum flokki.
Mánamenn áttu einnig fleiri verðlaunahross, Krummi frá Geldingalæk sem sigraði í ungmennaflokki í eigu Jóns Olsens og Erlu Zakaríasdóttur og Drífa frá Hafsteinsstöðum sem sigraði í 100 m flugskeiði og Skugga-Baldur, sem varð 4. í A-flokki, eru bæði í eigu Sigurðar Ragnarssonar.
Á heildina litið var árangur Mánamanna mjög góður og allir keppendur voru félaginu sínu til sóma. Á kynbótavellinum var það ræktun Brynjars Vilmundarsonar sem skaraði fram úr hjá Mánamönnum, en hann átti hæst dæmda fimm vetra stóðhestinn, Vilmund frá Feti og hryssuna í fimmta sæti í fjögurra vetra flokki, Jónínu frá Feti, auk fleiri kynbótahrossa sem vöktu verðskuldaða athygli.
Mynd 1: Jóhanna á Djákna frá Feti
Mynd 2: Vilmundur frá Feti