Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mánamenn eignuðust Íslandsmeistara um helgina
Mánudagur 25. júlí 2011 kl. 10:30

Mánamenn eignuðust Íslandsmeistara um helgina

Hestamannafélagið Máni stóð fyrir glæsilegu Íslandsmóti yngri flokka á Mánagrund um helgina. Mótið stóð frá fimmtudegi til sunnudags og fyrstu tvo dagana lék veðrið við keppendur sem og aðra en svo tók að hvessa verulega seinni dagana tvo.

Það létu keppendur ekkert á sig fá og eignuðust Mánamenn Íslandsmeistara þegar Jóhanna Margrét Snorradóttir og hesturinn Flaumur frá Leirulæk sigruðu í fimmgangi unglinga en hún vann einnig unglingaflokk á Landsmóti hestamanna fyrir skömmu. Jóhanna Margrét hafnaði einnig í þriðja sæti í fjórgang á hestinum Bárði frá Skíðbakka.

Ásmundur Ernir Snorrason sem er einmitt bróðir Jóhönnu Margrétar hafnaði í þriðja sæti í fjórgang ungmenna og varð fjórði í tölti á hestinum Rey frá Melabergi. Sunna Sigríður Guðmundsdóttir og Skálmar frá Hnjúkahlíð frá Mána komst svo í A-úrslit í T-4 töltkeppni ungmenna og endaði í 5 sæti. Aðrir keppendur frá Mána stóðu sig með mikilli prýði og voru félagi sínu til mikils sóma.

Myndir/EJS: Efri mynd: Jóhanna Margrét Snorradóttir bætti Íslandsmeistaratitli í safnið og á neðri myndinni er hún ásamt Ásmundi bróður sínum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024