Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mamma veit best
Laugardagur 26. nóvember 2011 kl. 14:05

Mamma veit best

Ómar Jóhannsson, markvörður og starfsmaður í Fríhöfninni sparkar pennanum fram á ritvöllinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Alla unga íþróttamenn dreymir stóra drauma í dag. Þau alast upp við að horfa á ensku deildina í fótbolta eða NBA körfuboltann. Reyndar horfir enginn á NBA í dag því að leikmennirnir eru ekki sáttir við hvað þeir eiga að fá lítinn hlut af tekjum deildarinnar þannig að það eru engir leikir. Endilega kynnið ykkur málið, þeir eiga alla vega ofsalega bágt. En það er önnur saga.

Strákarnir vilja alla vega fara til Liverpool eða Man. Utd. og ekkert minna dugar. Kannski fjarlægir draumar en ekki svo. Ísland á heilan helling af atvinnumönnum úti um alla Evrópu í öllum mögulegum íþróttum. Það eru hins vegar margir sem slást um þessi útvöldu sæti þeirra sem fá að lifa við það að stunda sína uppáhaldsíþrótt. Ég held að það hafi verið Guðni Kjartans sem svaraði spurningu eftir tap íslenska landsliðsins gegn Brasilíu um muninn á liðunum eitthvað á þessa leið. “Á Íslandi eru um 300 þúsund manns, í Brasilíu eru um 300 þúsund hægri bakverðir”. Held að það séu engar nákvæmar rannsóknir á bak við þessar tölur um Brassana en það er samt örugglega ekki fjarri lagi.

Af hverju ætti þá einhver ungur íþróttamaður frá Íslandi að “meika” það frekar en milljón aðrir sem vilja sama hlut. Við búum alla vega við góðar aðstæður til þess að stunda íþróttir hér á landi þrátt fyrir misjafnt veðurfar þá höfum við reist heilu hallirnar til þess að stunda íþróttir við bestu aðstæður árið um kring. Svo er eins og sumir fæðist hreinlega með náðargáfu frá náttúrunnar hendi til þess að vera góður í sinni íþrótt eða bara hvaða íþrótt sem er. Sumir geta fengið bolta í hendurnar og bara vita hvað þeir eiga að gera við hann, hvort sem þeir eiga að sparka eða kasta boltanum.

Meðfæddir hæfileikar slá samt sjaldnast við réttu hugarfari. Þegar allir sem þú þekkir spila fótbolta öllum stundum eins og þú þá er það oftast spurning um besta hugarfarið hver nær lengst. Hvernig þú hugsar um þig þegar þú ert ekki að æfa er gjarnan það sem gerir útslagið. Það þurfa ekki að vera stórir hlutir en þeir geta skipt miklu máli þegar þú æfir mikið og vilt ná árangri. Oft áttar maður sig bara ekki á þessu fyrr en maður verður aðeins eldri vegna þess að þegar maður er ungur og fullur af orku frá morgni til kvölds kemst maður upp með að svindla smá.

Lítið ráð sem ég get gefið er að prufa að fara snemma í rúmið. Ekki hanga í tölvunni spilandi fótboltaleik til 3 um nóttina bara til þess að mæta dauðþreyttur í skólann næsta dag og svo enn þreyttari á æfingu eftir skóla. Spurðu bara mömmu þína, hún er sammála mér.

Annað ráð er að borða eitthvað annað en snúða og bland í poka. Ég veit að það er gott á meðan þú treður því upp í þig en orkan úr því dugar í svona 15 mínútur. Gömlu góðu nammidagarnir á laugardögum eru alls ekki svo vitlaus hugmynd til dæmis. Spurðu bara mömmu þína, hún er sammála mér.
Að lokum er eitt mjög mikilvægt sem allir ættu að hafa í huga sem vilja ná árangri. Alls ekki gera eins og ég og halda að þú vitir allt! Hlustaðu á þjálfarann þinn. Hér á landi eru ótrúlega margir hæfileikaríkir og fróðir þjálfarar sem geta leiðbeint þér bæði innan sem utan vallar í átt að árangri. Hlustaðu á þá. Það kostar blóð, svita og tár að ná árangri en það getur verið algjörlega þess virði ef það tekst.