Magnús verður áfram í Keflavík
Bakvörðurinn og stórskyttan Magnús Þór Gunnarsson hefur gert eins árs samning við körfuknattleikslið Keflavíkur en hávær orðrómur hefur verið á kreiki um að Magnús hafi ætlað að semja við Snæfellinga. Magnús staðfesti þann orðróm við Víkurfréttir en tjáði blaðamanni að það hefði að lokum verið Keflavíkurhjartað sem slegið hefði of fast í brjósti hans.
,,Mér fannst í raun mjög spennandi að vera áfram hjá Keflavík, það er engin Evrópukeppni hjá okkur í ár svo maður ætti að vera ferskur til þess að klára heila deildarkeppni. Við fjölskyldan fengum einnig gríðarlega góðan stuðning frá bæjarbúum í vetur þegar heimili okkar brann,” sagði Magnús í samtali við Víkurfréttir.
Magnús viðurkenndi fúslega að hann væri spenntur fyrir því að leika með öðrum liðum hérlendis og að Snæfell hefði komið sterklega til greina. ,,Ég hafði hugsað mér að semja við Snæfell en það var Keflavíkurhjartað sem sló hraðar,” sagði Magnús. ,,Það er nóg um að vera í okkar herbúðum og það er ein af ástæðunum fyrir því að ég vildi vera áfram. Síðustu tvö leiktímabil hafa verið vonbrigði og ég vil skilja við klúbbinn með titli sem er stærri en
,,Ég var spenntur fyrir því að leika undir stjórn Kotila, þjálfara Snæfells, þar sem ég hef verið með besta þjálfara landsins í langan tíma og maður vandar valið eftir svoleiðis þjálfun,” sagði Magnús og segir Keflvíkinga þegar byrjaða að huga að næstu leiktíð. ,,Það eru allir kolbrjálaðir yfir því að hafa dottið út í 8 liða úrslitum því okkur finnst við vera bestir. Við þurfum bara að hysja upp um okkur brækurnar, berja frá okkur og breyta alfarið okkar hugarfari,” sagði Magnús sem jafnframt er fyrirliði Keflavíkurliðsins.