Magnús Þórisson dæmir sinn fyrsta bikarúrslitaleik
Magnús Þórisson verður dómari í úrslitaleik KR og Fjölnis í VISA-bikar karla, sem fram fer á Laugardalsvelli á laugardag kl. 14:00. Aðstoðardómarar verða þeir Gunnar Gylfason og Jóhann Gunnarsson, varadómari verður Eyjólfur Magnús Kristinsson og Jón Sigurjónsson verður eftirlitsmaður KSÍ.
Laugardagurinn verður stór dagur fyrir milliríkjadómarann Magnús, en hann mun þarna dæma bikarúrslitaleik í fyrsta sinn. Dagurinn er einnig stór fyrir aðstoðardómarana Gunnar og Jóhann, sem munu leggja flagg og flautu á hilluna að leik loknum eftir mörg ár í dómgæslu fyrir KSÍ.
„Sumarið er búið að vera bæði upp og niður hjá mér. Vegna fjölgunar liða í efstu deild er búið að vera gríðarlegt leikjaálag á úrvalsdeildardómarana og um miðjan júní þurfti ég að hætta í leik Fram og Breiðabliks eftir aðeins 15 mínútna leik með tognun í kálfa sem mátti rekja til leikjaálags og var ég að vinna í þeim meiðslum í rúman mánuð“, segir Magnús Þórisson knattspyrnudómari í samtali við Víkurfréttir.
Þrátt fyrir að dómarar hafi æft saman undir leiðsögn þjálfara þrisvar í viku síðan í nóvember á síðasta ári, þá vill Magnús meina að hvíld á milli leikja sé kannski oft lítil þar sem dómarar voru jafnvel að dæma líka í 1. deildinni.
„Fleiri dómarar í efstu deild voru að eiga við álagsmeiðsli þannig að oft á tíðum í sumar voru 2-4 frá vegna meiðsla. „En á heildina litið var þetta skemmtilegt sumar, miklu fleiri leikir að dæma fyrir mann í efstu deild og fullt af efni í reynslubankann“.
- Hvað finnst þér um fjölgun liða í efstu deild?
„Um 12 liða deild er það að segja að mótið er mikið skemmtilegra og mikið af óvæntum úrslitum sem hafa litið dagsins ljós. Að hafa 12 liða deild hefur líka þýtt það í sumar að KSÍ hefur þurft að henda ungum dómurum fyrr upp í efstu deild eða í djúpu laugina og hafa þeir staðið sig vel í sumar“.
Umræðan og álagið í kringum boltann verður alltaf meiri með hverju ári sem líður, t.a.m. fjölmargir fótboltanetmiðlar sem liggja ekki á skoðunum sínum og leyfa fólki að "kommenta" á greinar og svo er vandaður þáttur hjá Stöð 2 sport þar sem boltagæðingarnir Tommi Tomm og Maggi Gylfa fara yfir málin.
„Auðvitað getur maður oft verið ósáttur eftir einhverja grein eða gagnrýni og langt frá því að vera sammála en maður er líka langt frá því að vera hlutlaus í þessu og verður fyrst og fremst að vera bara með breitt bak í þessum bransa“.
- Svo er það stærsti leikur sumarsins á laugardaginn.
„Að sjálfsögðu er mikil tillhlökkun og maður er farinn að undirbúa sig fyrir hann og fara yfir hann fyrirfram í huganum. Það verða mjög reynslumiklir menn með mér en það eru þeir Gunnar Gylfason og Jóhann Gunnarsson. Þetta er kveðjuleikur hjá þeim báðum, Gunnar að hætta vegna anna í starfi hjá KSÍ en minn kæri vinur og Keflvíkingur Jói er bara því miður kominn á aldur karlinn. Hann er að verða fimmtugur og má því ekki dæma í efstu deild eftir það samkvæmt reglum KSÍ en hann gæti örugglega verið allavega til sjötugs“.
Magnús segir að undirbúningur að öðru leiti fyrir bikarúrslitin sé að mestu sá sami og fyrir leik í úrvalsdeildinni nema að dómarar og aðstoðardómarar muni hittast um morguninn, halda fund samann og borða léttan hádegisverð.
„Að því loknu er haldið á Laugardalsvöllinn og haldinn fundur með liðsstjórum og farið yfir búninga liðanna, passað að litasamsettning sé ekki of lík. Síðan út að hita upp og teygja og þá er orðið annsi stutt í leikinn og væntanlega slatti af fiðrildum í maganum en svo er bara að flauta leikinn á kl 14.00. Þá er bara að standa sig“, segir Magnús Þórisson knattspyrnudómari að endingu.
Efri mynd: Magnús og hinn heimskunni knattspyrnudómari Colina.