Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Magnús Már valinn íþróttamaður ársins hjá Þrótti
Körfuknattleiksmaðurinn Magnús Már Traustason er íþróttamaður Þróttar 2023. Myndir/Þróttur Vogum
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 7. febrúar 2024 kl. 10:38

Magnús Már valinn íþróttamaður ársins hjá Þrótti

Fjölmargar aðrar viðurkenningar voru veittar við sama tilefni

Val á íþróttamanni ársins hjá Þrótti Vogum fór fram í síðustu viku en fjórir íþróttamenn voru tilnefndir þetta árið. Viðburðurinn vel sóttur og við sama tilefni var sex aðilum innan félagsins veitt starfsmerki félagsins. Þá fékk körfuknattleiksdeild félagsins viðurkenningu fyrir árangurinn á síðasta ári.

Starfsmerki Þróttar

Margrét Ársælsdóttir, sjúkraþjálfari meistaraflokks Þróttar í knattspyrnu. Margrét hóf störf hjá Þrótti 2019 og er á leiðinni inn í sitt sjötta tímabil hjá Þrótti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sævar Júlíusson, markmannsþjálfari meistaraflokks Þróttar í knattspyrnu. Sævar hóf störf hjá Þrótti 2018 og er á leiðinni í sitt sjöunda tímabil hjá Þrótti.

Piotr Wasala, liðs- og búningastjóri meistaraflokks Þróttar. Piotr hefur verið liðstjóri frá árinu 2019 og sinnt afar óeigingjörnu starfi síðustu fimm árin. Piotr er alltaf mættur klukkutíma á undan liðinu á keppnisstað og heldur utan um keppnisfarangur félagsins og ber ábyrgð á leikskýrslu.

Davíð Hansen, stjórnarliði og þjálfari. Davíð kom í stjórn félagsins 2018 og lét af störfum 2022. Davíð er þjálfari 6. flokks Þróttar í dag.

Sólrún Ósk Árnadóttir, þjálfari og stjórnarliði. Sólrún hefur verið stjórn félagsins síðastliðin fjögur ár og samhliða því sinnt þjálfun innan Þróttar.

Birkir Alfonsson, stjórnarliði innan körfuknattleiksdeildar Þróttar og fyrrum formaður. Birkir hefur verið í stjórn deildarinnar frá árinu 2020 og er stofnandi meistaraflokksins í Vogum. Stundum kallaður faðir körfuboltans þar í bæ.

Reynir Emilsson, varaformaður UMFÞ í dag og hefur verið starfinu síðustu árin.

Meistaraflokkur karla í körfuknattleik fékk viðurkenningu fyrir magnað tímabil á síðasta ári þegar liðið fór taplaust í gegnum 2. deild og úrslitakeppnina og varð að lokum deildarmeistari 2. deildar karla. Árangur liðsins fengið mikla athygli og í dag er liðið á góðri leið með að tryggja sig inn í úrslitakeppni 1. deildar. Þrátt fyrir fjölmargar áskoranir þá er magnað að fylgjast með stjórnarliðum deildarinnar að leysa þau mál sem upp koma. Ber helst að nefna að heimaleikir liðsins fara fram í Sandgerði þar sem húsið í Vogum er ekki löglegt fyrir leiki í 1. deild. Þróttarar eru hvattir til að fjölmenna á næstu leiki liðsins.

Það var vel mætt þegar tilkynnt var hver væri íþróttamaður Þróttar.

Eftirtaldir aðilar voru tilnefndir til íþróttamanns ársins 2023

Adam Árni Róbertsson, fyrirliði meistaraflokks Þróttar í knattspyrnu á síðasta ári. Adam Árni skoraði þrettán mörk og endaði sem næstmarkahæsti leikmaður 2. deildar og var í liði ársins. Í haust gekk Adam til liðs við Grindavík og kann félagið honum miklar þakkir fyrir sitt framlag og óskar honum góðs gengis hjá nýju félagi.

Jón Arnór Sverrisson, meistaraflokki Þróttar í körfuknattleik. Jón var lykilmaður í liði Þróttar sem fór taplaust í gegnum tímabilið á síðasta ári. Þrátt fyrir mörg gylliboð annarra félaga þá vissi hann að hamingjan er í Vogum og kláraði tímabilið með Þrótti og var einn af betri leikmönnum 2. deildar.

Magnús Már Traustason, meistaraflokki Þróttar í körfuknattleik. Magnús var valinn leikmaður ársins innan körfuknattleiksdeildar Þróttar. Magnús fór á kostum í liði Þróttar sem sigraði 2. deild með miklum yfirburðum.

Ólafur Örn Eyjólfsson, leikmaður meistaraflokks Þróttar í knattspyrnu. Ólafur var valinn leikmaður ársins á síðasta ári hjá knattspyrnudeild Þróttar. Þrátt fyrir meiðsli í upphafi móts kom hann sterkur inn um mitt sumar og var lykilmaður í liðinu er Þróttarar náðu sínum fjórða besta árangri í sögu félagsins.

Allir þessir leikmenn sem tilnefndir eru eiga það sameiginlegt að hafa spilað í efstu deild hér á landi í sinni íþrótt. Það er frábært fyrir Þrótt og Voga að eiga slíkar fyrirmyndir innan okkar raða, segir í tilkynningu frá Þrótti.


Myndasafn frá valinu á íþróttamanni ársins eru neðar á síðunni.

Íþróttamaður Þróttar Vogum 2023