Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Magnús: Kristinn mun ekki gefa höggstað á sér
Föstudagur 28. september 2007 kl. 11:55

Magnús: Kristinn mun ekki gefa höggstað á sér

Magnús Þórisson knattspyrnudómari frá Keflavík segir ekkert óeðlilegt við það að kollegi sinn Kristinn Jakobsson dæmi leik Keflavíkur og ÍA í síðustu umferð Landsbankadeildar karla í knattspyrnu á laugardag. Nokkuð hefur verið rætt um það að Kristinn verði dómari leiksins þar sem hann var einmitt dómari þegar liðin mættust í leiknum umdeilda uppi á Skipaskaga fyrr í sumar. Víkurfréttir náðu tali af Magnús sem útskýrði hvers vegna Kristinn myndi dæma leikinn.

 

,,Kristinn er mjög góður kostur sem dómari í leik Keflavíkur og ÍA á morgun. Hann kemur ekki til með að gefa Skagamönnum fimm aur út af því sem á undan er gengið. Willum Þór, þjálfari Vals, ásakaði Kristinn um að láta Guðjón Þórðarson stjórna sér og svo var Kristinn dómari í leiknum fræga á Akranesi. Þessar aðstæður eru til þess að Kristinn mun koma mjög einbeittur í þetta verkefni, það er mín tilfinning fyrir þessu. Ég þekki Kidda mjög vel og hann á ekki eftir að gefa höggstað á sér. Annað kæmi mér mjög á óvart,” sagði Magnús í samtali við Víkurfréttir.

 

Víkurfréttir leituðu svara hjá Magnúsi og spurðu hann af hverju Kristinn var færður á leik Keflavíkur og ÍA. ,,Kristinn er að fara í mjög erfitt Evrópuverkefni í næstu viku og það kom ekki til greina af hálfu KSÍ að hvíla hann í lokaumferðinni. Kristinn er að fara að dæma stóran leik í Frakklandi og þarf að vera í sínu besta formi,” sagði Magnús.

 

Kristinn Jakobsson dæmir fyrir KR í Landsbankadeildinni og þar sem KR er í fallbaráttunni og allir aðrir leikir en Keflavík ÍA snúa að fallbaráttunni þá var slagurinn á Keflavíkurvelli það eina sem stóð til boða. ,,Enn önnur ástæðan fyrir því að Kristinn dæmir þennan leik er einfaldlega sú að Kristinn er einhver hæfasti dómarinn til að dæma svona leik sem hugsanlega gæti orðið mikill slagsmálaleikur,” sagði Magnús sem sjálfur mun dæma leik Víkings og FH í Víkinni á laugardag.

 

,,Þetta verður stórleikur í Víkinni og verður svona leikur þar sem dómarinn getur ekki unnið. Hugsanlega falla Víkingar og þá gæti FH misst af Íslandsmeistaratitlinum. Dómarinn verður aldrei vinsæll við þessar aðstæður,” sagði Magnús en hann hafði ekki miklar áhyggjur af því heldur sagðist hann myndu mæta einbeittur til leiks. Ef hann kæmist vel frá verkefninu að sínu eigin mati þá væri hann ánægður.

 

Síðla októbersmánaðar heldur Magnús svo til Eistlands þar sem hann mun dæma í einum riðli í Evrópukeppni 17 ára landsliða karla svo það er margt á döfinni hjá eina UEFA dómara Suðurnesja.

 

VF-Mynd/ [email protected] Kristinn Jakobsson fylgist með leikmanni Fylkis sem stillir knettinum á vítapunktinn í Árbænum þegar Fylkir skellti Keflavík 4-0. Kristinn dæmdi vítaspyrnu á Keflavík strax á 2. mínútu leiksins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024