Magnús dæmir í Hollandi
Magnús Þórisson, milliríkjadómari í knattspyrnu frá Keflavík, mun dæma leik Hollands og Eistlands í undankeppni EM 2009 hjá U21 landsliðum karla. Magnúsi til aðstoðar verða þeir Einar Sigurðsson og Áskell Þór Gíslason og fjórði dómari verður Garðar Örn Hinriksson.
Leikurinn fer fram í Emmen í Hollandi 26. mars en þessar þjóðir eru í 5. riðli undankeppninnar. Hollendingar standa vel að vígi í riðlinum og eru með fullt hús stiga eftir fjóra leiki en Eistar eiga enn eftir að vinna sér inn stig í riðlinum.
VF-Mynd/ Jón Örvar Arason – Magnús Þórisson er á meðal fremstu knattspyrnudómara landsins.