Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Magnús afgreiddi KR
Mánudagur 30. janúar 2006 kl. 11:38

Magnús afgreiddi KR

Ævintýraleg þriggja stiga karfa frá Magnúsi Gunnarssyni tryggði Keflavík sigur á KR í Iceland Express deild karla í gærkvöldi. Staðan var 92 – 92 þegar Arnar Freyr Jónsson stal boltanum fyrir Keflavík, fann Magnús við þriggja stiga línuna og kappinn klikkaði ekki og sýndi enn einu sinni að hann er á meðal bestu leikmanna landsins. Boltinn rataði rétta leið og Magnús tryggði Keflavík mikilvæg stig í DHL – höllinni.

Jón Hafsteinsson lék ekki með Keflavík í gær og þar munar um minna en hann verður væntanlega klár í slaginn með Keflavík á næstunni. KR – ingar hófu leikinn af krafti og höfðu yfir 32 – 24 að loknum 1. leikhluta þar sem Brynjar Björnsson kom sterkur inn. Keflvíkingar jöfnuðu sig fljótt og vel og sigruðu 2. leikhluta 26 – 15 og skiptu oft úr maður á mann vörn í svæðisvörn ásamt því að pressa á KR og þar unnust nokkrir boltar. Fjölbreytt varnarafbrigði Keflvíkinga settu KR út af laginu í 2. leikhluta og höfðu Keflvíkingar yfir í leikhléi 47 – 50 og þar skiptu tveir dreifbýlisþristar (nær miðju en þriggja stiga línunni) frá Gunnari Stefánssyni sköpum.

A.J. Moye gerði 18 stig fyrir Keflavík í hálfleik og Magnús Gunnarsson var með 12 stig. Hjá KR voru Fannar Ólafsson og Pálmi Sigurgeirsson báðir með 10 stig.

KR – ingar telfdu fram nýjum leikmanni í gær, Melvin Scott, en hann tók stað Omari Westley sem KR sagði upp störfum eftir að hann var dæmdur í 4ra leikja bann. Scott stóð sig ágætlega en KR – ingar léku hvað best án hans í leiknum og var 3. leikhluti gott dæmi um það. Er Scott fór út af í 3. leikhluta gekk allt upp hjá KR sem sigraði leikhlutann 30 – 9 og hreinlega völtuðu yfir Keflavík. Fyrir fjórða og síðasta leikhlutann var staðan 77 – 59 KR í vil og allt stefndi í öruggan sigur KR. Fyrrum leikmaður Keflavíkur, Fannar Ólafsson, var sérstaklega drjúgur fyrir KR í 3. leikhluta og lék við hvern sinn fingur en hann gerði 25 stig í leiknum og tók 12 fráköst.

Í fjórða leikhluta hófu Keflvíkingar hægt og rólega að saxa á forskot KR, það voru engin læti í Íslandsmeisturunum heldur gerðu þeir þetta þegjandi og hljóðlaust og skyndilega var staðan orðin 88 – 83 og Keflavík komnir óþægilega nærri KR sem klúðraði góðu forskoti. KR – ingar, minnisstæðir leiknum í Ljónagryfjunni er þeir hleyptu Njarðvík aftur inn í leikinn og töpuðu, létu sér þó ekki segjast og þegar staðan var 92 – 92 áttu KR – ingar sókn og 13 sekúndur til leiksloka. Arnar Freyr Jónsson stal þá boltanum, fann Magnús Gunnarsson, og uppskar stoðsendingu er Magnús gerði út um leikinn með ævintýralegu þriggja stiga skoti með Brynjar Björnsson í andlitinu. Stórkostlegur karaktersigur hjá Keflavík sem verma nú 2. sætið í IE – deildinni ásamt Grindavík, bæði lið með 22 stig, fjórum stigum á eftir Njarðvík í toppsætinu með 26 stig.

A.J. Moye var stigahæstur hjá Keflavík með 31 stig og 8 fráköst og Magnús Gunnarsson gerði 23 stig. Hjá KR var Pálmi Sigurgeirsson með 26 stig og Fannar Ólafsson 25. Melvin Scott á örugglega eftir að reynast KR vel sem leikstjórnandi en þetta var hans fyrsti leikur í IE – deildinni og á Scott eftir að láta meira frá sér heyra en hann gerði 7 stig í leiknum og var með 4 stoðsendingar.

Tölfræði leiksins

VF – myndir/ JBÓ

 

 

 

 

 

 

 

 


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024