Maggi Tóka hænuskrefi frá undanúrslitunum
Maggi Tóka þarf laglega að gera í brækurnar í næstu umferð til að komast ekki upp fyrir Grindvíkinginn Jónas Þórhallsson sem er í fjórða sæti með 26 rétta en Maggi er kominn með 22 rétta, hann heldur velli og þarf bara fimm rétta til að komast upp fyrir Jónas. Ef Maggi fær skituna, og nær eingöngu fjórum réttum, mun Jónas halda fjórða sætinu þar sem hann er með fleira rétta að meðaltali í þeim leikjum sem hann tók þátt, er með 8,67 á móti 7,33 hjá Magga.
Íslenskir tipparar eru ekki beint að dæla milljónunum inn á bankareikninginn þessa dagana, enginn af ellefu tippurum sem náðu þrettán réttum var íslenskur, hver fékk rúmar fimmtán milljónir í vasann. Níu af 442 tippurum sem náðu tólf réttum eru landar okkar og auðguðust um rúmar 83 þúsund krónur.
Þar sem karlpeningurinn hefur ekki staðið sig í áskorandahlutverkinu að undanförnu er kominn tími til að hleypa konu að. Hún heitir Petra Lind Einarsdóttir og er ekki búin að gera upp við sig með hverjum hún heldur í enska boltanum en í þeim íslenska er bara eitt lið sem kemur til greina, ekki síst þar sem tvær dætur hennar spila með liðinu, Keflavík.
„Maðurinn minn heldur með Manchester United og dæturnar með Liverpool svo það má segja að ég sé eins og milli steins og sleggju. Ég hef ekki verið dugleg við að tippa og þarf jafnvel að fá aðstoð frá fjölskyldunni því ég fylgist lítið sem ekkert með enska boltanum. Fyrst þú, blaðamaðurinn ert United-maður, tek ég jafnvel ákvörðun hér og nú og styð þá hér eftir frekar en Liverpool.
Blessunarlega fer knattspyrnuáhugi minn allur í íslenska boltann, ég er búin að vera í stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur undanfarin ár og hef verið í kvennaráði lengur en það. Dætur okkar eru lykilmenn í liðinu, þær Aníta Lind og Eva Lind. Aníta var kosin besti leikmaður liðsins á síðasta tímabili.
Ég er keppnismanneskja og ætla mér auðvitað ekkert annað en sigur á móti þessum Magga Tóka. Þegar ég skoða úrslitin undanfarnar vikur sýnist mér hann ekki hafa verið að spila sterkt mót, tvisvar sinnum búinn að fá sjö rétta og einu sinni átta, það er ekki merkilegur árangur í mínum huga. Kæmi mér ekki á óvart fyrst pressan er á honum að ná fimm leikjum réttum til að komast í fjórða sætið, að hann geri upp á bak. Ég hlakka til að mæta honum,“ sagði Petra Lind.
Maggi er stressaður fyrir næstu umferð þar sem mjög mikið er í húfi. „Ég viðurkenni fúslega að vera mjög stressaður fyrir næstu umferð, það yrði auðvitað alger hneisa ef ég kem mér ekki upp fyrir Jónas í fjórða sætið. Mér er slétt sama hverjum ég mæti í næstu umferð, núna þarf ég bara að einbeita mér að því að ná fimm leikjum eða fleirum því þá er ég kominn með pálmann upp í hendurnar. Auðvitað stefni ég á að halda sigurgöngu minni áfram en aðalatriðið núna er að koma mér inn í undan-úrslitin,“ sagði Maggi.