Maggi Gunnars til Njarðvíkur
Magnús Þór Gunnarsson, fyrirliði Íslandsmeistara Keflavíkur í körfuknattleik, hefur, samkvæmt heimildum Víkurfrétta, samið við Njarðvíkinga um að leika með þeim á næstu leiktíð.
Koma þessi tíðindi nokkuð á óvart þar sem Magnús hefur leikið allan sinn feril með Keflvíkingum og unnið með þeim fjöldamarga titla, síðast sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.
Ef af verður mun þetta reynast mikil vítamínssprauta fyrir Njarðvíkurliðið, sem gekk ekki sem skildi á síðasta tímabili. Þeir hafa misst lykilleikmenn og sögðu Teiti Örlygssyni upp þjálfarastöðunni, en Valur Ingimundarson er kominn í brúna á nýjan leik.
Er búist við því að nánari fréttir og jafnvel staðfesting á vistaskiptum Magnúsar berist fljótlega.
Keflvíkingar geta þó sótt einhverja huggun í það að Gunnar Einarsson, besti maður nýliðinnar úrslitakeppni, hefur gefið þeim loforð um að leika með þeim á næsta ári nema hann ákveði að hætta körfuknattleiksiðkun.
VF-mynd/Þorgils - Magnús fagnar meistaratitlinum fyrir skemmstu.