Mættir til Noregs
Leikmenn Knattspyrnuliðs Keflavíkur og annað fylgdarlið mættu kl. 14:30 í Leifsstöð í dag og héldu til Noregs en Keflavík mun mæta Lilleström á laugardag í Inter-Toto keppninni.
Flogið var með Icelandair og gekk flugið fljótt og vel fyrir sig, eins og svo oft áður varð frónverjum tíðrætt um veðrið við lendingu enda um 20 stiga hiti á flugvellinum.
Kristján Guðmundsson, þjálfari liðsins, dustaði rykið af norskunni sinni og sá um öll samskipti við bifreiðastjóra rútunnar og það var ekki að sök að spyrja, um 30 mínútum síðar var hópurinn kominn á Thon Hotel Arena í Lilleström.
Hótelið sjálft er til fyrirmyndar, snyrtilegt og hlýlegt og fínn staður fyrir strákana til þess að undirbúa sig fyrir átök laugardagsins. Fyrsta bakslagið í ferðinni er komið en til allrar lukku var það ekki alvarlegt, Falur Daðason, sjúkraþjálfari liðsins, átti bágt með að koma nuddbekknum fyrir á eins manns herberginu sínu. Það vandamál var fljótt leyst og innan tíðar verður hægt að byrja að nudda leikmennina.
Í fyrramálið er svo morgunverður á milli 7 og 10 en kl. 15:30 mun liðið halda á æfingu á Arasen stadium en það er heimaleikvangur Lilleström og rúmar um 12 þúsund manns í sæti.
Þangað til næst...
VF-mynd/ [email protected] – Ómar markvörður og Kenneth á flugvellinum í Noregi.