Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Maður með metnað
Föstudagur 8. september 2006 kl. 11:18

Maður með metnað

Sturla Ólafsson er sterkasti maður Suðurnesja annað árið í röð. Keppnin fór fram á Ljósanótt og voru 11 keppendur skráðir til leiks en aðeins fimm keppendur gátu lokið keppni.


„Ég er kominn í ákskrift að titlinum,“ sagði Sturla léttur í bragði en hann hefur stundað lyftingar í sjö ár og á Reykjanesmet í samanlögðu (712,5 kg), bekkpressu (195 kg) og hnébeygjum (242,5 kg). „Í þessari íþrótt er maður alltaf að taka lítil skref fram á við og mig langar til þess að fara vel yfir 200 kg í bekkpressu og ætla mér að gera það í vetur,“ sagði Sturla en fyrrum höfuðandstæðingur hans og lærimeistari, Freyr Bragason var einn aðstandenda keppninnar á Ljósanótt. „Freyr og Herbert Eyjólfsson komu mér út í þessa vitleysu og nú er svo búið að ég æfi um 35 tíma á mánuði og borða eins og meðalfjölskylda,“ sagði Sturla og hló.

„Það kom mér á óvart þegar ég byrjaði hvað þetta er mikið tæknisport, styrkurinn hefur ekki verið að aukast upp á síðkasti heldur er tæknin orðin betri hjá mér og reynslan meiri,“ sagði Sturla sem segir aldrei fleiri þátttakendur hafa tekið þátt í keppninni Sterkasti maður Suðurnesja en þetta árið. „Í mótinu voru strákar sem geta gert góða hluti ef þeir fylgja því eftir sem þeir eru að gera núna,“ sagði Sturla sem m.a. hætti að reykja og drekka til þess að ná árangri í íþróttinni og setja börnum sínum gott fordæmi. „Það þýðir ekki að vera í djammgír og líka keppnismaður í lyftingum, það fer ekki saman. Þeir sem gera þetta ekki af alvöru ná ekki árangri.“

Næst sterkasti maður Suðurnesja er Þorsteinn Pálsson og í þriðja sæti í keppninni var Jóhann Hermann Ingason. Þeir Freyr Bragason og Herbert Eyjólfsson stóðu að keppninni á Ljósanótt en keppnin var styrkt af Reykjanesbæ.

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024