Maður ársins sigraði þungavigtina
Um helgina var haldið Mjölnir Open, glímumót í uppgjafarglímu og voru um 80 keppendur á mótinu. Uppgjafarglíma er keppnisform á brazilian jiu jitsu glímum. Í uppgjafarglímu er keppt án hefbundins judogalla, í stað þess eru keppendur á stuttbuxum og bol. Það eru því færri brögð sem hægt er að gera þar sem keppendur geta ekki notað gallan til að gera köst eða hengingartök. Markmið glímunnar er að neyða andstæðing til uppgjafar með ákveðnum liðamótalásum eða hengingartökum. Ef keppandi lendir í taki sem hann sleppur ekki úr þá gefur hann þess merki og tapar glímunni. Einnig ef engin uppgjafartök hafa komið í lok glímunnar þá er notast við stigagjöf til að ákvarða hvor aðilinn sigar. Stig eru veitt fyrir köst, sóknarbrögð og sóknarstöður.
Judodeild UMFN/Sleipnir fór með 8 keppendur á mótið. Guðmundur Stefán Gunnarsson judoþjálfari hjá UMFN kom sá og sigraði sinn flokk örugglega. Guðmundur sigraði sína fyrstu glímu þar sem andstæðingur hans gat ekki haldið áfram glímunni. Í úrslitaglímunni sigraði hann svo á hengingartaki. Guðmundur hafði titil að verja þar sem hann sigraði þungavigtina einnig glæsilega á síðasta ári. Það er því augljóst að hér er á ferðinni einn öflugasti glímumaður landsins í þungavigt.
Björn Lúkas Haraldsson, margfaldur judo, ju jitsu og taekwondo gullverðlaunahafi sigraði sína fyrstu glímu á stigum. Næstu glímu tapaði hann þó á axlarlás þegar skammt var eftir af glímunni eftir mjög jafna og spennandi glímu. Björn Lúkas fékk silfurverðlaun á síðasta móti, en fór núna upp um þyngdarflokk.
Tómas Jónsson sigraði sína fyrstu glímu þegar andstæðingur hans gat ekki haldið áfram glímu. Glíman var spennandi strax frá byrjun og jöfn alveg þar til henni lauk. Tómast tapaði svo næstu glímu á stigum eftir góða og erfiða baráttu.
Aðrir keppendur Judodeildar UMFN/Sleipnis stóðu sig einnig vel en tókst ekki að sigra sína fyrstu glímu. Mikil gróska er í glímuíþróttunum um þessar mundir, en velgengi Gunnars Nelson og Árna Ísakssonar bardagakappa á eflaust mikinn þátt í því. Margir stórgóðir glímukappar eru að koma upp í öllum félögum landsins.
Æfingar í brazilian jiu jitsu eru í Reykjaneshöllinni þriðjudaga og fimmtudaga kl 19:15 fyrir áhugasama. 13 ára aldurstakmark.