Madeira of sterkir
Portúgalska liðið CAB Madeira sigraði Keflavík í Sláturhúsinu 87-108 í áskorendakeppni Evrópukeppninnar í kvöld. Staðan í hálfleik var 40-51 Madeira í vil en gestirnir áttu góðan þriðja leikhluta sem gerði út um leikinn.
Keflavíkurhraðlestin var kynnt með flugeldasýningu í Sláturhúsinu og létu áhorfendur vel í sér heyra. Dametri Hill gerði fyrsta stig leiksins fyrir Madeira en Hill þessi átti heldur betur eftir að setja mark sitt á leikinn. Jón Hafsteinsson svaraði í 2-2 en gestirnir breyttu stöðunni fljótlega í 6-15 með grimmum varnarleik. Madeira pressaði vel á bakverði Keflavíkur allan leikinn og gaf það vel. Staðan að loknum fyrsta leikhluta 16-29 gestunum í vil og heldur mörg mistök hjá Íslandsmeisturunum að gera vart við sig.
Gunnar Einarsson opnaði annan leikhluta á vítalínunni og breytti stöðunni í 18-29 en hann var líka á ferðinni í næstu sókn og setti niður þrist og staðan 21-29. Dametri Hill, sem vegur nálægt 150 kílóum, var illviðráðanlegur í teignum en hann fékk að verja of löngum tíma þar inni án þess að dómarar leiksins gerðu þar athugasemdir. Vörn Madeira var þétt og áttu Keflvíkingar í erfiðleikum með að komast upp að körfunni. Tvö af átta stigum A.J. Moye komu þegar tæpar fimm mínútur voru til hálfleiks en þá náði hann sóknarfrákasti og skoraði og staðan 36-42 og Keflvíkingar byrjaðir að anda ofan í hálsmál gestanna. Hálfleikstölur urðu þó 40-51 og voru þeir Zlatko og A.J. Moye komnir með 3 villur í Keflavíkurliðinu. Keflvíkingar vörðu mestum part leiksins í svæðisvörn, hún gekk ágætlega en Madeira menn fundu þó glufur á vörninni og nýttu sér þær vel.
Damitri Hill gerði 20 stig í fyrri hálfleik og áttu Keflvíkingar fá svör við styrk hans. Zlatko var atkvæðamestur Keflavíkur í fyrri hálfleik með 7 stig.
Reiðarslag leiksins kom svo í þriðja leikhluta þar sem gestirnir stungu Keflavík af. Á tæpum fimm mínútum breyttu þeir stöðunni úr 40-51 í 47-72. Var sóknarleikur Madeira yfirvegaður og liðið tók aðeins vel valin skot ásamt því að berjast um hvert einasta sóknarfrákast. Gunnar Stefánsson kom inn af bekknum af miklum krafti en hann var stigahæstur Keflvíkinga í leiknum með 20 stig. Til að kóróna mótlætið sem Keflvíkingar stóðu andspænis í leiknum fékk A.J. Moye sína fimmtu villu þegar þrjár mínútur voru til loka þriðja leikhluta og var hann síður en svo sáttur við dómara leiksins. Þriðja leikhluta lauk 59-80.
Gunnar Stefánsson var heitur í fjórða leikhluta en félagar hans náðu ekki að fylgja fordæminu og má geta þess að skotnýting Keflavíkurliðsins hefur oft verið betri. Madeira lét góðar rispur Keflvíkinga ekki á sig fá og héldu um 20 stiga forystu til leiksloka. Magnús Gunnarsson mátti sætta sig við brottrekstur eftir riskingar við Filipi Da Silava en Silava komst oft upp með harkalega framgöngu og fór það í taugarnar á Keflvíkingum. Gunnar Stefánsson átti síðasta orð leiksins þegar hann setti niður þriggjastiga körfu og lauk leiknum 87-108 eins og áður getur.
Gunnar var stigahæstur Keflvíkinga með 20 stig en honum næstir voru Jón Hafsteinsson með 15, Zlatko með 12 og Gunnar Einarsson með 10. A.J. Moye var tæpast skugginn af sjálfum sér í kvöld með 8 stig.
Hjá Madeira gerði Damitri Hill 28 stig og Kenny Younger 20 en Younger átti stórgóðan leik og þá sérstaklega varnarlega séð.
Keflvíkingar fara því með 21 stigs tap á bakinu til Portúgal næsta fimmtudag og ljóst að þeirra bíður ærinn starfi. Ekki er öll von úti enn þar sem Keflvíkingar komust upp úr riðlakeppninni við svipaðar aðstæður.
Tölfræði leiksins
VF-myndir/ Páll Ketilsson