Maciej hlaut Elfarsbikarinn
Lokahóf yngri flokka hjá Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur fór fram fyrir skömmu og var margt um manninn í Ljónagryfjunni. Einstaklingsverðlaun yngri flokka voru afhent, og Elfarsbikarinn var veittur í 24. skiptið. Bikarinn er veittur efnilegasta leikmanni yngri flokka hjá UMFN. Yfirþjálfari velur í samráði við aðra þjálfara efnilegasta leikmanninn sem er frábær fyrirmynd bæði utan vallar og innan. Bikarinn er gefinn til minningar um Elfar Þór Jónsson f. 18. janúar 1957 d. 8. janúar 1988 sem lék körfubolta með félaginu til margra ára.
Að þessu sinni var það hinn 18 ára gamli Maciej Baginski, leikmaður í meistaraflokki, unglingaflokki og drengjaflokki sem fékk bikarinn afhentan. Unglingaráð bauð iðkendum, þjálfurum, foreldrum og öðrum gestum upp á pylsur og drykki að verðlaunaafhendingu lokinni.
Nánar á UMFN.is.