Fimmtudagur 20. september 2007 kl. 13:07
Lukkudrekar með í för
Á laugardag mun Keflavík leika sinn annan bikarúrslitaleik í kvennaflokki þegar liðið mætir KR á Laugardalsvelli kl. 16:00. Keflavík lék fyrst í bikarúrslitum árið 1991 þegar liðið lá 6-0 gegn ÍA. Keflavík og KR mættust í síðustu umferð Landsbankadeildar kvenna á mánudag þar sem KR fór með 4-0 sigur af hólmi. Fyrirfram er gert ráð fyrir að KR eigi sigurinn vísann en sjaldan er góð vísa of oft kveðin en hún hljómar einhvern vegin svona: ,,Það getur allt gerst í bikarnum.”
KR og Valur hafa verið yfirburðalið í kvennaknattspyrnunni í sumar og því er óneitanlega öll pressan á KR að þessu sinni. Keflvíkingar eiga þó enn fallbyssur í vopnabúri sínu þar sem Danka Podovac snýr aftur inn í liðið en hún var hvíld á mánudag þar sem hún hefði verið í banni um helgina ef hún hefði fengið gult spjald gegn KR. Þá er einnig von á því að sóknarmaðurinn Guðný Petrína Þórðardóttir klæðist Keflavíkurbúninginum að nýju eftir erfið meiðsli á aftanverðu læri í sumar. Guðný var á æfingu með Keflavíkurliðinu á þriðjudag og á miðvikudag en ákvörðun um hvort hún verði með verður tekin í dag eða á morgun.
Lilja Íris Gunnarsdóttir
Fyrirliði Keflavíkur, Lilja Íris, leikur um helgina sinn fyrsta bikarúrslitaleik og er von á því að hún muni standa í ströngu í hjarta Keflavíkurvarnarinnar. Lilja segir leikinn á mánudag litlu máli skipta þegar á Laugardalsvöll verður komið. ,,Aðstæðurnar í Keflavík voru erfiðar en við börðumst vel og lærðum af leiknum og ætlum okkur að gera betur í bikarnum. Við megum bara ekki gleyma okkur í vörninni gegn liði eins og KR, það kostar mark. Á laugardag munum við byggja vel á vörninni en við ætlum ekkert að pakka í vörn heldur sækja á þær líka. Danka kemur aftur inn í hópinn og það hjálpar helling og kannski verður Guðný með svo við vonum bara að við tökum KR á laugardag.”
Olga Færseth
Ein besta knattspyrnukona landsins gerði garðinn fyrst frægan í Keflavík en þær eru fáar sem þekkja bikarúrslitin jafn vel og Olga. Hún lék með Keflavík árið 1991 í tapleiknum gegn ÍA en alls hefur hún leikið sjö bikarúrslitaleiki og þrívegis orðið meistari. Olga freistar þess um helgina að landa sínum fjórða titli. ,,Vissulega er pressan á KR en ég hef áður farið í leik með liði sem talið er sigurstranglegra og tapað. Við í KR viljum ekki ljúka leiktíðinni tómhentar svo við komum klárar í slaginn. Keflavík verður með sterkara lið um helgina heldur en síðasta mánudag svo þær eru til alls líklegar.”
Lukkudrekarnir
Þeir Salih Heimir Porcha þjálfari Keflavíkur og Rajko Stanisic markvarðaþjálfari hjá Keflavík hafa aldrei á sínum ferli tapað bikarúrslitaleik. Porcha varð þrívegis bikarmeistari sem leikmaður, tvisvar með KR og einu sinni með Val, en Rajko varð meistari með karlaliði Keflavíkur 2004 og 2006 og þá sem markvarðaþjálfari. Þeir fara nú báðir í fyrsta sinn sem þjálfarar kvennaliðs í bikarúrslitaleik.
,,Þetta verður erfiður leikur á laugardag því KR er með sterkt lið og marga landsliðsmenn. Ef Keflavík tekst að halda hreinu þá vinnum við bikarinn og ef einhverjum tekst að halda hreinu þá er það Jelena Petrovic markvörður Keflavíkur,” sagði Rajko og bætti því við að hann vildi framar öllu kynnast þeirri tilfinningu að nýju að verða bikarmeistari.
[email protected]