Luka er nýr þjálfari Reynismanna
Knattspyrnudeild Reynis hefur ráðið Luka Jagacic þjálfara meistaraflokks félagsins í knattspyrnu til næstu tveggja ára.
Frá þessu er sagt á vef Reynis en Luka kom upphaflega til félagsins sem leikmaður árið 2019. Hann lenti í því óláni að rífa liðþófa og lék því ekki með liðinu. Luka, sem er með UEFA B þjálfararéttindi og að ljúka við UEFA A réttindin, var ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks síðar sama ár.
„Ég er mjög ánægður og spenntur fyrir þessari áskorun. Ég hef trú á sjálfum mér og liðinu og veit að við munum eiga frábært tímabil saman,“ er haft eftir Luka Jagacic í frétt Reynis.