Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Lovísa Fals skoraði 4 þrista gegn UMFG
Lovísa Falsdóttir setur hér einn af fjórum þristum sínum í leiknum. María Ben er til varnar. Mynd/karfan.is/Skúli Sig.
Þriðjudagur 15. október 2013 kl. 08:00

Lovísa Fals skoraði 4 þrista gegn UMFG

Pálína skorar ekki 32 stig gegn okkur - sagði Lovísa sem er ánægð með nýja þjálfarann.

Keflavíkurstúlkur unnu sannfærandi 84-67 sigur á grönnum sínum úr Grindavík í Domino´s deildinni í gær en leikið var í TM-Höllinni. Heimastúlkur settu tóninn strax í upphafi leiks og leiddu frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Frábær vörn og barátta einkenndi leik Keflavíkur og áttu helstu leikmenn Grindavíkur í mestu vandræðum mest allan leikinn að Keflavíkurmærinni Maríu Ben Erlingsdóttur undanskilinni en hún lék vel á sínum gamla heimavelli og geigaði vart úr skoti.

Sara Rún Hinriksdóttir og Porsche Laundry voru stigahæstar í liði heimastúlkna með 22 stig hvor auk þess sem þær léku nánast óaðfinnanlega vörn. Bryndís Guðmundsdóttir átti frábæran leik með 10 stig og 10 fráköst og þá var Sandra Lind Þrastardóttir í skepnuham í teignum þar sem hún lék frábæra vörn sem skilaði sér í 6 vörðum skotum og 3 stolnum boltum. Bríet Sif og Lovísa Falsdóttir komu sterkar af bekknum en sú fyrrnenfnda skoraði 8 stig en sú síðarnefnda 12 stig - öll úr þriggjastigaskotum. Heimasíða Keflavíkur heyrði í Lovísu eftir þennan frækna sigur.
 
Hvað skóp þennan sannfærandi sigur gegn Grindavík? 
Við byrjuðum af krafti strax frá uppkastinu og spiluðum fjóra góða leikhluta, eitthvað sem við höfum ekki gert hingað til á þessu tímabili.  Einnig að það voru allir með hausinn á réttum stað og tilbúnar að koma inná til þess að leggja sitt af mörkum.
 
Fannst ykkur þið þurfa að sanna ykkur aukalega gegn Grindavík þar sem margir fyrrum samherjar ykkar eru þar ásamt fyrrum þjálfara? 
Ég segi kannski ekki að við höfum hugsað mikið um að sanna okkur. Markmiðið var að gera betur en í síðasta leik á móti þeim. Lykilleikmaður eins og Pálína, sem er búin að spila með okkur lengi, á ekki að geta skorað 32 stig á okkur líkt og í þeim leik, við þekkjum hana betur en það. 
 
Nú, hefur þú verið að fá mun fleiri tækifæri en áður - hverju þakkaru það?
Vissulega meira trausti frá þjálfurunum og svo er sóknin sem hann spilar ekki eins og flest íslensk lið eru með. Kerfin eru flest ekki fyrir einhvern ákveðinn einstakling í liðinu, heldur ef við framkvæmum kerfin rétt geta allir orðið opnir. Sem er bara snilld.
 
Hvert er markmið liðsins í vetur og þitt persónulega markmið?
Markmið liðsins eru skýr, við ætlum að halda áfram á þessari sigurbraut og verða tvöfaldir meistarar eins og í fyrra. Það þýðir ekkert minna! Helstu markmið mín eru að bæta mig á hverri æfingu og í hverjum leik!
 
Eitthvað að lokum?
Já! Ég vil sko þakka stuðningsmönnunum kærlega fyrir frábæra mætingu og vil að þetta verði svona út tímabilið. Ég hef enga trú á öðru nema við séum bara að fara að bæta okkur og þá má ekki halda að við þurfum stuðninginn ekki lengur! Þið eruð æði, áfram Keflavík!!
 
keflavik.is

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024