Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Loks sigur á heimavelli
Mánudagur 12. september 2005 kl. 01:38

Loks sigur á heimavelli

Keflavík á enn möguleika á þriðja sætinu í Landsbankadeild karla eftir öruggan heimasigur á Fram í dag, 2-1.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn mun betur en gestirnir og má segja að fyrri hálfleikur hafi farið nær alfarið fram á vallarhelmingi Framara. Þeir höfðu veðurguðina á sínu bandi og spiluðu undan strekkingsvindi.

Hörður Sveinsson fékk fyrsta færi leiksins strax á 2. mínútu þegar hann fékk stungusendingu inn fyrir vörnina en Gunnar Sigurðsson markvörður var á réttum stað og varði í horn. Keflvíkingar fengu annað horn eftir það sem ekkert kom út úr.

Keflvíkingar voru hvergi nærri hættir og á 8. mínútu leit fyrsta markið dagsins ljós. Þar var Hörður á ferð og skoraði með laglegum skalla utarlega úr teignum eftir fyrirgjöf Jónasar Guðna Sævarssonar af hægri kantinum.

Keflvíkingar hreinlega óðu í færum um miðjan hálfleikinn þar sem Bjarni Sæmundsson, Guðmundur Mete, og Hólmar Örn Rúnarsson fengu allir ákjósanleg færi til að tvöfalda forskotið án þess að eiga erindi sem erfiði.

Issa Kadir, Englendingurinn í liði heimamanna þurfti að fara af velli á 33. mínútu, en hann var greinilega vankaður eftir höfuðhögg sem hann hafði fengið fyrr í leiknum. Í hans stað kom Einar Orri Einarsson, 15 ára leikmaður sem stóð sig með mikilli prýði á miðjunni og barðist eins og ljón allan leikinn. Virkilega gaman var að sjá til þessa efnilega leikmanns sem á eflaust eftir að láta mikið að sér kveða á næstu árum.

Keflvíkingar náðu loks að koma knettinum í möskvana á 34. mín og var þar að verki Guðmundur Steinarsson. Hann fékk háa sendingu inn á vítateig Framara og var enginn varnarmaður nálægt þegar hann skallaði boltann framhjá Gunnari í markinu.

Keflvíkingar voru varla hættir að brosa eftir markið þegar Andri Fannar Ottósson minnkaði muninn eftir snarpa sókn. Bo Henriksen stakk boltanum inn fyrir vörn Keflvíkinga þar sem Andri vippaði yfir Ómar í markinu og rétti stöðuna af fyrir sína menn.

Eftir þetta mark jafnaðist leikurinn talsvert og Framarar fengu nokkur færi. Það besta á 40. mín þegar Andri Fannar fékk að valsa um í vítateignum framhjá hverjum varnarmanninum á fætur öðrum. Henriksen fékk boltann en Ómar varði laust skot hans úr þröngu færi.

Fyrri hálfleikurinn var fjörugur og einkenndist af stórsókn Keflvíkinga en sá seinni var ekki eins mikið fyrir augað. Keflvíkingar færðu sig aftar og Framarar sóttu mun meira en í byrjun leiks, án þess þó að koma sér í afgerandi færi.

Það sama má segja um heimamenn sem fengu nokkur tilvalin tækifæri til að auka forystuna en fóru illa að ráði sínu áður en þeir komust upp að markinu.

Framarar lögðu allt kapp á sóknina á lokakaflanum, en allt kom fyrir ekki. Keflvíkingar hrósuðu sínum fyrsta heimasigri síðan í maí þegar þeir lögðu KR.

„Þetta var ljúft!“ sagði Hörður Sveinsson í leikslok. „Við hefðum samt getað sett miklu fleiri mörk. Leikurinn var harður og jafn en við gerðum það sem til þurfti og unnum. Við vorum aular að fá á okkur mark rétt eftir annað markið okkar en við sýndum hvernig karakter er í þessu liði og héldum haus og kláruðum þetta.“

Keflavík er sem fyrr í 4. sæti, tveimur stigum á eftir ÍA, og mætir Grindavík í lokaleiknum.

Staðan í deildinni

VF-myndir/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024