Loks fagnar Jóhannes
Glæsilegt Motocrossmót var haldið á Sólbrekkubraut ofan Seltjarnar á laugardag.
Þar tókust bestu ökuþórar landsins á í síðasta móti sumarsins og þótti ljóst að úslirtin á Íslandsmótinu í Motocross myndu ráðast. Aron Ómarsson frá Vélhjólaíþróttafélagi Reykjaness var í baráttunni um titlinn í 125cc flokki, en missti naumlega af titlinum og hampaði í staðinn silfrinu.
Athygli vakti að heimamaður að nafni Jóhannes Sveinbjörnsson var hlutskarpastur í meistaraflokki B og sigraði með yfirburðum. Jóhannes er nýfarinn að keppa aftur eftir langt hlé og var að vinna sín fyrstu verðlaun á Motocrossmóti. „Ég byrjaði að hjóla á Sólbrekku á BMX hjólinu mínu þegar ég var 10 ára en eftir að ég sá mótorhjólastrákana keyra þar fyrst var ég hugfanginn. Ég ætlaði mér að verða jafn góður og þeir og keppa á Íslandsmóti," sagði Jóhannes í samtali við Víkurfréttir. „Þegar ég var að keppa áður var ég allt of fljótur á mér, en nú er ég þroskaðri og með meiri reynslu og ég vann mótið á því," bætir hann við. Jóhannes segist að lokum hvergi hættur og ætli að taka þátt í Íslandsmótinu af fullum krafti næsta sumar. „Ég er kominn til að vera í þessu sporti. Það er ekki spurning, enda er ég búinn að bíða lengi eftir því að koma aftur."
Myndir/Supersport.is