Lokaumferð Iceland Expressdeildar karla í kvöld
Deildarkeppninni í Iceland Express deild karla í körfuknattleik lýkur í kvöld með heilli umferð þar sem allir leikirnir hefjast kl. 19:15. Keflavík fær deildarmeistaratitilinn afhentan í kvöld í Toyotahöllinni þegar Fjölnismenn mæta í heimsókn. Leikur liðanna hefur engin áhrif á stöðuna í deildinni, Keflavík mun ljúka keppni í 1. sæti og Fjölnir er fallið í 1. deild ásamt Hamri frá Hveragerði.
Allir aðrir leikir kvöldsins hafa töluvert meira vægi en leikur Keflavíkur og Fjölnis þar sem það ræðst endanlega hvaða lið ná inn í úrslitakeppnina og í hvaða sæti þau verða. Njarðvík og Snæfell eru jöfn að stigum fyrir kvöldið og berjast hart um 4. sætið í deildinni.
Stórleikur verður í Ljónagryfjunni þar sem Njarðvíkingar taka á móti grönnum sínum úr Grindavík en jafnan er mikið um dýrðir þegar þessi tvö Suðurnesjalið eigast við. Með sigri í kvöld getur Njarðvík tryggt sér 4. sætið en tapi Njarðvíkingar og Snæfell vinnur Þór á Akureyri þá ná Snæfellingar 4. sætinu og þar með heimaleikjaréttinum í 1. umferð úrslitakeppninnar en Njarðvík og Snæfell mætast í fyrstu umferðinni. Grindvíkingar vilja væntanlega ná fram sigri í Ljónagryfjunni þar sem þeir geta náð 2. sætinu af KR svo fremi að Íslandsmeistararnir tapi í DHL-Höllinni í kvöld gegn Skallagrím.
Þá er töluverð spenna að fá úr því skorið hverjir mæti Keflavík í 1. umferð úrslitakeppninnar þar sem staðan er þannig að ef Þór tapar gegn Snæfell í kvöld þá er leikur Stjörnunnar og Tindastóls hreinn úrslitaleikur um 8. sætið í deildinni. Eins og staðan er í dag mæta ÍR-ingar KR-ingum líkt og í fyrra í 1. umferð úrslitakeppninnar en fari svo að þeir tapi fyrir Hamarsmönnum og Þórsarar sigri Snæfell, mæta ÍR-ingar Deildarmeisturunum í Keflavík í fyrstu umferðinni.
Af ofangreindu er ljóst að töluverð spenna verður í leikjum kvöldsins og munum við greina frá því hvaða lið mætist í fyrstu umferð úrslitakeppninnar um leið og leikjum kvöldsins lýkur.
Leikir kvöldsins, allir kl. 19:15
Keflavík-Fjölnir
Njarðvík-Grindavík
KR-Skallagrímur
Stjarnan-Tindastóll
Þór Akureyri-Snæfell
ÍR-Hamar
VF-Mynd/ [email protected] – Jóhann Árni Ólafsson verður í eldlínunni í Ljónagryfjunni í kvöld.