Lokaspretturinn hefst í kvöld
Deildarkeppnin í Iceland Express deild karla í körfuknattleik hefst aftur í kvöld eftir bikarhlé með fjórum leikjum sem allir hefjast kl. 19:15. Þetta er 19. umferð deildarinnar en henni lýkur annað kvöld, föstudag, með leikjum Hamars og Keflavíkur og svo Stjörnunnar og KR.
Í kvöld taka Grindvíkingar á móti ÍR í Röstinni og Njarðvíkingar halda Norður í land og mæta Tindastól á Sauðárkróki. Bikarliðin Fjölnir og Snæfell mætast í Grafarvogi og Skallagrímur fær Þór Akureyri í heimsókn. Egill Jónasson verður með Njarðvíkingum í kvöld og að sögn Teits Örlygssonar þjálfara Njarðvíkinga mun Egill hita upp með liðinu hið minnsta en hann á svo að vera orðinn endanlega klár í slaginn í þarnæsta leik Njarðvíkinga sem verður gegn Skallagrím í Ljónagryfjunni. Egill fór nýverið í aðgerð sökum meiðsla í hné og hefur verið frá í skamman tíma í liði Njarðvíkur.
Hart er barist um hvert einasta sæti í deildinni um þessar mundir og með sigri í kvöld geta Grindvíkingar jafnað Keflavík á toppi deildarinnar. Grindavík hefur 28 stig í 2. sæti en Keflavík er á toppnum með 30 stig. KR hefur einnig 28 stig en Grindavík hefur betur í innbyrðisviðureignum liðanna.
Njarðvík, Snæfell og Skallagrímur heyja harða baráttu um 4. sætið en öll hafa þau 20 stig og eiga leik í kvöld. Hér að neðan birtum við síðustu deildarleiki Suðurnesjaliðanna eins og þeir koma fyrir.
Keflavík:
Hamar-Keflavík
Keflavík-Tindastóll
Skallagrímur-Keflavík
Keflavík-Fjölnir
Grindavík:
Grindavík-ÍR
Snæfell-Grindavík
Grindavík-Þór Akureyri
Njarðvík-Grindavík
Njarðvík:
Tindastóll-Njarðvík
Njarðvík-Skallagrímur
Fjölnir-Njarðvík
Njarðvík-Grindavík
VF-Mynd/ [email protected] - Þorleifur og félagar í Grindavík geta með sigri á ÍR í kvöld jafnað Keflavík að stigum á toppi deildarinnar.