Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Lokasprettur tippleiks Víkurfrétta
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 29. mars 2024 kl. 06:06

Lokasprettur tippleiks Víkurfrétta

Eftir landsleikjahlé snýr tippleikur Víkurfrétta til baka. Í síðustu umferð vann kokkurinn, tónlistarmaðurinn og bæjarfulltrúinn í Suðurnesjabæ, Anton Guðmundsson, sigur á öðrum kokki sem er kenndur við Sandgerðishluta Suðurnesjabæjar og Réttinn í Reykjanesbæ, Magnús Þórisson.

Til upprifjunar þá munu fjórir tipparar enda efstir eftir veturinn og mun sá í efsta sætinu mæta þeim sem er í því fjórða og, númer tvö og þrjú mætast, í undanúrslitum og munu þær rimmur fara fram í næstsíðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Sigurvegararnir mætast svo í lokaumferðinni og sigurvegarinn skellir sér á Wembley á úrslitaleik FA Cup 25. maí. Staðan í leiknum í dag er þannig að Grétar Ólafur Hjartarson er efstur með 46 leiki rétta, Gunnar Már Gunnarsson með 36, Hámundur Örn Helgason með 34 og Jónas Karl Þórhallsson með 26.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áskorandi vikunnar kemur úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja, hann heitir Magnús Einþór Áskelsson en er jafnan kallaður Maggi Tóka. Hann hefur kennt á starfsbraut FS í fjórtán ár en það er námsbraut fyrir krakka með greiningar.

„Eigum við ekki að segja að gamall draumur sé að rætast, að fá að tippa í tippleik Víkurfrétta. Sem United-maður kem ég með bullandi sjálfstraust inn í leikinn eftir glæstan sigur minna manna á Liverpool í bikarnum fyrir skömmu. Ég hef nýtt mér þetta tækifæri til hins ýtrasta, að láta Pool-arana heyra það en ég var óþolandi næstu daga eftir leikinn, tækifærin hafa nú ekki verið mörg að undanförnu fyrir okkur að gorta okkur. Ég hef verið með tippleik í gangi í FS en samt ekki þannig að tippað er á þrettán leiki. Við höfum þetta þannig að maður velur sér lið og ef það vinnur heldur maður áfram en þarf að velja sér nýtt lið næst. Svona gengur þetta koll af kolli þar til einn stendur uppi sem sigurvegari. Við vorum einmitt að klára tímabil um síðustu helgi. Ég tippa af og til í getraunum með vinnufélaga, hef gaman af því og eins og ég segi, stefni ótrauður á að vinna Anton um helgina. Það var auðvitað mjög óvænt að hann skyldi hafa unnið Magnús, því get ég og mun ekki vanmeta Anton þó svo að hann segist ekkert hafa vitað út á hvað tipp gengur. Mig grunar að hann hafi verið að þyrla ryki í augun á fyrrum vinnuveitanda sínum. Maggi hlýtur að hafa vanmetið andstæðinginn og þá er oft ekki von á góðu, eins og kom á daginn. Ég hlakka til glímunnar við Anton og mun leggja mig allan fram,“ sagði Maggi.

Anton var hálfhrærður yfir að hafa unnið fyrrum vinnuveitanda sinn. „Ég veit ekki hvað skal segja, ég mætti í þennan leik með auðmýktina að vopni, var ánægður með að fá að vera með og átti ekki von á að veita Magga mikla samkeppni. Ég náði nú að misskilja hvernig ég átti að fylla seðilinn út, ég valdi bara tölvuval og hélt ég væri að gera rétt en sem betur fer var mér bent á mistökin og þá ákvað ég að tippa sjálfur. Renndi ansi blint í sjóinn en þarna sást að til að vinna í getraunum þarf ekkert að vera einhver sérfræðingur í enska boltanum. Mig grunar að þeim mun meira sem maður spáir í stöðu liðanna í deildinni, þeim mun minni líkur séu á árangri. Ég mun áfram nálgast þetta verkefni með sama vopn, auðmýktin er og mun verða mitt aðalsmerki í þessum tippleik Víkurfrétta. Ég býð áskoranda minn hjartanlega velkominn til leiks,“ sagði Anton.