Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Lokakarfa Sverris kórónaði sigur Keflavíkur á UMFG
Sunnudagur 22. nóvember 2009 kl. 22:02

Lokakarfa Sverris kórónaði sigur Keflavíkur á UMFG

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég ætlaði ekki að láta hann skora. Þegar ég sá að ég fékk ekki villu sem maður er alltaf hræddur um, þá vissi ég að þetta væri búið,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson, hetja Keflvíkinga í Iceland Express deildinni í körfubolta þegar þeir unnu Grindvíkinga í hörku spennandi leik í Toyota höllinni 97-89. Leikurinn var hníf jafn alveg fram á síðustu sekúndur en Hörður varði skot Darrels Flake inni í teignum þegar staðan var 89-87 þegar um 20 sekúndur voru til leiksloka. Í stað þess skoruðu Keflvíkingar í næstu sókn og í næstu sókn á eftir gat Páll Axel Grindvíkingur jafnað með þriggja stiga skoti en brást bogalistin. Keflvíkingar tryggðu sér þanig sigurinn sem reyndar varð stærri en útlit var fyrir á síðustu mínútunni því þeir fengu nokkur víti þegar Grindvíkingar brutu á þeim nokkrum sinnum.

Heimamenn voru yfir mest allan leikinn og leiddu með níu stigum eftir fyrsta leikhluta og mestur varð munurinn 19 stig þegar annar leikhluti var hálfnaður. Grindvíkingar girtu sig í brók fyrir hálfleik og minnkuðu muninn í átta stig. Þeir héldu sókninni áfram og í þriðja leikhluta minnkaði munurinn niður í 3 stig og minnstur varð hann tvö stig á lokamínútunni. 91-89. Þá voru 18 sekúndur eftir en Keflvíkingar voru sterkari og skoruðu strax í næstu sókn og gerðu út um leikinn.

Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 22 stig í jöfnu Keflavíkurliði og þeir Þröstur Leo Jóhannsson og Sverrir Þór Sverrisson skoruðu 21 stig hvor. Sverrir Þór skoraði körfu leiksins sem jafnframt var sú síðasta þegar hann þrumaði boltanum beint ofan í af eigin vallarhelmingi. Boltann small í gegn körfuhringinn á sama tíma og leikflautan gall.

Darrel Flake skoraði 31 stig fyrir Grindvíkinga, Brenton Birmingham var með 17 og Páll Axel Vilbergsson 13 stig. Þetta var fjórði tapleikur Grindavíkur í deildinni í vetur. Keflvíkingar eru við toppinn og hafa aðeins tapað einum leik.

Sigurður Þorsteinsson skorar af harðfylgi og sama gerir Rashon Clark (sjá neðri mynd) í leiknum í kvöld. Á efstu myndinni er Sverrir Þór í baráttunni gegn sínum gamla félaga, Arnari Frey Jónssyni. VF-myndir/Páll Orri Pálsson.