Logi verður frá keppni næstu sex vikurnar
Logi Gunnarsson meiddist í leiknum gegn Val á dögunum og komið hefur í ljós að um skaddað liðband í hné er að ræða. Það er því ljóst að Logi verður því ekki með Njarðvíkingum í Subway-deild karla næstu sex vikurnar.
Logi lítur á þetta með jákvæðu hugarfari en á vefsíðu UMFN er haft eftir honum: „Það sem ég óttaðist mest var að krossbandið væri slitið og tímabilið og hreinlega ferillinn í hættu. Þetta eru því í raun jákvæðar fréttir. Ég reyni að horfa á þetta jákvæðum augum og mér líður vel núna. Læknar sem skoðuðu myndirnar segja að fyrirbyggjandi æfingar sem ég geri daglega séu í raun að bjarga mér.“