Logi til ToPo í Finnlandi
Landsliðsmaðurinn í körfuknattleik, Logi Gunnarsson, er á leið til ToPo í Finnlandi. Logi gerði eins árs samning við liðið í gærkvöldi og heldur til Finnlands á morgun. Keppni í finnsku úrvalsdeildinni er þegar hafin og hefur ToPo leikið tvo leiki, tapað einum og haft einn sigur.
„Þeir ætlast til mikils af mér í sókninni en þetta verður mikið álag þar sem um 44 deildarleiki er að ræða og þá er ekki meðtalin bikar- og úrslitakeppni,“ sagði Logi í samtali við Víkurfréttir.
Logi lék með Bayreuth í þýsku 2. deildinni á síðustu leiktíð en í sumar varð ljóst að hann ætlaði sér ekki að leika í þeirri deild aftur heldur vildi taka skref upp á við og leika í sterkari deild en sú finnska er klárlega sterkasta deildin í Skandinavíu.
„Það er gott að vera búinn að klára þetta og ég var orðinn svolítið órólegur með mín mál,“ sagði Logi en viðræður við ungverskt og kýpverskt lið fuku út um gluanna fyrir skemmstu. „Upp úr þurru höfðu Finnarnir samband og buðu mér mun betri samning en ég hafði verið að skoða í Ungverjalandi og á Kýpur,“ sagði Logi sem tekur unnustu sína, Birnu Björk Þorkelsdóttur, með sér til Finnlands. „Við erum búin að vera í Þýskalandi í fjögur ár og hún hefur staðið vel við bakið á mér,“ sagði Logi sem að undanförnu hefur verið við æfingar hjá sínu gamla félagi í Njarðvík.
VF-mynd/ [email protected] - Logi í landsleik