Logi til Frakklands
Logi Gunnarsson bakvörður Njarðvíkinga hefur gengið frá samningi við lið St.Etiénne í Frakklandi og mun á sunnudag halda suður til Frakklands þar sem hann mun spila næsta árið. Samningur var undirritaður nú í hádeginu og var þessi samningur til eins árs.
„Þetta eru gríðarlega góðar fréttir og mikill léttir að þessu ferli sé lokið. Það er aldrei gott að vera í óvissunni hvað þetta varðar. En það hefðir auðvitað líka verið gaman að vera heima og spila með félögum mínum í Njarðvík.“ Sagði Logi í samtali við Karfan.is rétt í þessu.
St. Etienne mun koma til með að spila í N1 (National one) deildinni í Frakklandi en voru í PRO B deildinni í fyrra. Liðið féll hinsvegar ekki um deild heldur voru eitt af sterkustu liðunum í deildinni. „Framkvæmdarstjóri félagsins lenti í einhverjum skandal varðandi deildina og var liðinu því refsað og sent niður um deild. Skemmst frá því að segja er búið að losa sig við þann mann. Ég gerði hinsvegar samning við liðið á þeim forsendum að þeir yrðu í Pro B deildinni. Þeir högguðu ekkert við þeim samningi þannig að þetta er allt í góðu. Stefnan er auðvitað strax upp í PRO B og svo sáum við bara til.“ sagði Logi.
Njarðvíkingar eiga líkast til eftir að sakna Loga þrátt fyrir að vera búnir að endurheimta marga af sínum heimamönnum, en kappinn var stigahæsti íslendingurinn í deildinni á síðasta ári. „ Ég fer út á sunnudag sem er flott því þá get ég hóað saman nokkra félaga á laugardag og horft leik Manchester United og Tottenham í góðra vina hópi.“ sagði Logi að lokum.
www.karfan.is