Logi sigraði í Leiru
Logi Sigurðsson varð klúbbmeistari Golfklúbbs Suðurnesja en meistaramótinu lauk á laugardag. Hann lék 72holurnar á einu höggi undir pari og sigraði örugglega.
Aðstæður voru frábærar og veðurguðirnir í sínu besta skapi. Logi átti frábæran þriðja hring sem hann lék á sex undir pari og forysta hans var níu högg fyrir lokahringinn.
Sveinn Andri Sigurpálsson varð annar á +9 og þriðji Björgvin Sigmundsson á +11.
Engin þátttakandi var í meistaraflokki kvenna en besti kvenkylfingur klúbbsins, Fjóla Margrét Viðarsdóttir fór í vikunni með unglingalandsliðinu á Evrópumót landsliða. Keppt var í opnum flokki kvenna án forgjafar og þar sigraði Erla Þorsteinsdóttir örugglega á 366 höggum og er því klúbbmeistari GS 2023.