Logi og Ólafur leika með landsliðinu gegn Tékkum
Logi Gunnarsson, sem leikur með Njarðvík, og Ólafur Ólafsson, sem leikur með Grindavík, eru í 12 manna landsliðshóp karla sem leikur gegn Tékklandi föstudaginn 24. nóvember næstkomandi, en leikurinn er annar tveggja leikja landsliðsins í undankeppni HM 2019.
Seinni leikurinn fer fram í Laugardalshöll gegn Búlgaríu þann 27. nóvember nk. en lokakeppnin sjálf fer fram í Kína eftir tvö ár.
Hvorki Elvar Már Friðriksson né Hörður Axel Vilhjálmsson eru í hóp, en Elvar er í skóla í USA sem fellur ekki undir FIBA og vitað var að hann kæmist ekki í landsliðsverkefni í vetur. Þá gaf Hörður Axel ekki kost á sér að þessu sinni.
Alls 24 leikmenn voru skráðir til FIBA fyrir þennan fyrsta glugga, en leikmenn Suðurnesjaliðanna voru einnig þeir Ragnar Ágúst Nathanaelsson úr Njarðvík, Sigurður Gunnar Þorsteinsson og Dagur Kár Jónsson úr Grindavík.
Liðið mun halda til Tékklands mánudaginn 20. nóvember en útileikurinn verður sýndur beint á RÚV 2. Auk Tékklands og Búlgaríu eru Finnar með í riðlinum.
Ólafur Ólafsson.