Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Logi leikur með Njarðvík í kvöld
Mánudagur 29. september 2008 kl. 14:29

Logi leikur með Njarðvík í kvöld

Karlalið Njarðvíkur í körfuknattleik hefur leik í fyrstu umferð Powerade-bikarsins í kvöld þegar liðið mætir Breiðabliki. Leikið verður í Ljónagryfjunni í Njarðvík, en athyglin beinist að því hvort landsliðsmaðurinn, Logi Gunnarsson, muni leika með liðinu í vetur. Allt bendir til þess að hann leiki með liðinu í kvöld og er það mikill hvalreki á fjörur Njarðvíkinga.

Í liði Breiðabliks eru þrír uppaldir Njarðvíkingar. Kristján Sigurðsson, Rúnar Ingi Erlingsson og Daníel Guðmundsson leika allir með liðinu, að ógleymdum Einari Árna Jóhannssyni, þjálfara Breiðabliks, sem er fyrrum þjálfari Njarðvíkur.

Nýr leikmaður mun koma á reynslu til Njarðvíkur í kvöld, en það er leikmaðurinn Gatis Engelis frá Lettlandi. Hann 22 ára gamall og er 196 cm á hæð. Hann hefur leikið með Ventspils BK í heimalandi sínu á undanförnum árum. Á síðasta tímabili var hann með 13,9 stig, tók 5,1 frákast og gaf 1,9 stoðsendingu að meðaltali í leik.

Leikurinn hefst kl. 19:15 og mun sigurliðið mæta Grindvíkingum í annarri umferð á miðvikudaginn.

Á sama tíma er einnig leikið í kvennaflokki. Íslandsmeistarar Keflavíkur taka á móti Snæfelli og Bikarmeistarar Grindvíkinga taka á móti Hamar.

Mynd/kki.is: Logi Gunnarsson mun leika með Njarðvíkingum í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024