Logi áfram í atvinnumennsku
-Ætlar til Svíþjóðar eða Frakklands
Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson er staddur hérlendis í sumarfríi en hann lék sem atvinnumaður í Frakklandi í fyrra. Logi ætlar sér aftur út en hann er samningslaus þessa stundina. Logi hefur verið í sambandi við lið í Svíþjóð og Frakklandi en reiknar með því að leika í öðru hvoru landinu á næsta tímabili. Logi er ekki á þeim buxunum að koma heim til þess að spila en hann segist eiga nóg eftir í atvinumennsku þrátt fyrir langan og farsælan feril sem spannar orðið 11 ár.
Varðandi það að finna sér nýja vinnuveitendur þá hefur Logi ekki miklar áhyggjur af því. Vanalega hefur hann verið að ganga frá sínum málum í ágústmánuði en hann hefur mikla reynslu af samningamálum eins og gefur að skilja eftir dvöl sína í hinum ýmsu löndum, en hann hefur m.a. áður leikið í Svíþjóð og Frakkalandi. Logi er nú með landsliði Íslands en liðið heldur til Búlgaríu á morgun. Nánar er rætt við Loga í Víkurfréttum á morgun um landsliðið en þar er Logi að nálgast merkan áfanga.