Löggan heimsótti boxara fyrir 15 árum
Boxkvöld Ljósanætur í kvöld - Myndir af starfinu í gegnum árin
Árið 2001 var stofnfundur Hnefaleikafélags Reykjaness haldinn. Tilgangur félagsins var að berjast fyrir lögleiðingu ólympískra hnefaleika á Íslandi. 35 félagsmenn mættu til stofnfundar. HFR er því elsta hnefaleikafélagið á landinu. Félagið er í mikilli sókn og sækir keppnir á innlendum sem erlendum mótum. Félagið á að baki marga Íslandsmeistaratitla og viðurkenningar fyrir sigra í keppnum. HFR er með öfluga unglingastarfsemi og einn efnilegasta keppnishóp á landsvísu í diploma hnefaleikum.
Þegar hnefaleikar urðu leyfileg íþrótt á Íslandi var ákveðið að HFR skyldi reyna að fá inngöngu í ÍBR, sem og varð raunin. Síðan hefur íþróttin og félagið notið mikilla vinsælda. Árið 2007 flutti félagið yfir í núverandi húsnæði, gömlu sundhöllina við Framnesveg. Þar urðu virkir iðkendur allt að 150 talsins. Stuttu eftir flutninginn tók við nýr þjálfari, Daði Ástþórsson, og eitt sigursælasta tímabil félagsins gekk í garð. Þar má nefna að félagið átti alls sex Íslandsmeistara árið 2009. Síðan þá hefur Björn Björnsson séð um þjálfun og séð til þess að íþróttin haldi sínu striki, en hann sinnir einnig starfi formanns. Félagið hlaut viðurkenningu frá ÍSÍ sem fyrirmyndarfélag, en HFR er eina hnefaleikafélagið enn sem komið er til að hljóta þann heiður. Úr ársskýrslu Íþróttabandalags Reykjanesbæjar 2016 kemur fram að HFR sé í mikilli sókn þar sem iðkendum fjölgaði um 30 prósent milli ára þar sem meirihlutinn eru ungmenni. „Fyrst þegar dóttir mín sagði að hún ætlaði að æfa box þá varð ég dauðhrædd, en það var áður en ég fékk að kynnast starfseminni og fólkinu sem á þar í hlut,“ segir Berglind Sigurðardóttir úr foreldrafélagi HFR.
Miklir fordómar í garð hnefaleika
Þann 11. febrúar árið 2002 voru samþykkt lög á Alþingi um að leyfa áhugamannahnefaleika á Íslandi. „Það er rosalega skrítið að fyrir bara 15 árum voru svo miklir fordómar gagnvart þessari íþrótt. Þetta er ólympísk íþrótt og hvar annars staðar í Evrópu tekið bara sem hverri annarri íþrótt en hér á Íslandi er maður að fá heimsókn frá löggunni,“ segir Guðjón Vilhelm. Lögregluheimsóknir voru tíðar fyrir grun um iðkun hnefaleika. „Þetta voru svo menn sem við þekktum, höfðu kannski æft jafnvel, en þarna voru þeir bara að vinna vinnuna sína. Þeim leið alveg illa með þetta en svona voru lögin.“
Haldið verður glæsilegt hnefaleikamót á Ljósanótt í ár, þar sem allir bardagar verða án höfuðbúnaðar og má búast við mikilli spennu í loftinu. Keppendur frá Keflavík eru: Vikar Sigurjónsson, sem er einn af stofnendum félagsins og virkustu keppendum í gegnum árin; Helgi Guðmundsson, Tae Kwon Do og BJJ þjálfari á Suðurnesjum og Þorsteinn Róbertsson, einn efnilegasti boxari Keflavíkur í dag. Kynnar kvöldsins verða Vikar Sigurjónsson og Guðjón Vilhelm, tveir af mönnunum sem komu þessu öllu saman af stað. Fram kemur leynigestur beint af götum Keflavíkur. Þess má geta að Guðjón Vilhelm situr nú í stjórn HFR rétt eins og í gömlu daga. „Já, ég sannfærði Björn um að hleypa mér í stjórnarsætið og síðan þykist hann hlusta á mig,“ segir Guðjón spaugilega og bætir við að lokum: „Það hefur verið ótrúleg vakning á bardagaíþróttum á síðustu árum en það eru bara 15 ár síðan félagið var stofnað hér í Keflavík, og 14 ár síðan þessir krakkar hér máttu ekki einu sinni stunda íþróttina.“
Frá hnefaleikakeppni á Ljósanótt 2003 þar sem Skúli Steinn Vilbergsson á í höggi við öflugan Dana.
Guðjón Vilhelm hugar hér að Tinnu Guðrúnu Lúðvíksdóttur í Boxhöllinni í Reykjanesbæ árið 2003.
Hressir boxarar árið 2004.
Árið 2007 var hafist handa við að breyta gömlu sundhöllinni í Keflavík í hnefaleikahöll.