Lofaði ljósu lokkunum ef Keflvíkingar kæmust í úrslit
- 17 ár á milli bikarúrslitaleikja hjá Jóhanni Birni
Það eru liðin 17 ár frá því að Jóhann Birnir Guðmundsson spilaði síðast úrslitaleik á Laugardalsvelli. Þá var hann kornungur og efnilegur leikmaður sem átti framtíðina fyrir sér í boltanum. Síðar hélt hann í atvinnumennsku þar sem hann átti farsælan feril. Á meðan hann dvaldi erlendis missti Jóhann af tveimur bikartitlum sem féllu Keflvíkingum í skaut. Hann er núna 36 ára gamall á lokametrunum á ferlinum og tekur þessu tækifæri fegins hendi. „Ég er spenntari fyrir leiknum núna en þá og kann fremur að meta þetta tækifæri. Manni fannst ungum að árum að maður ætti eftir að spila fjölda svona leikja en það er ekkert gefið að spila svona leiki.“ Jóhann fylgdist með bikartitlunum 2004 og 2006 og gladdist fyrir hönd félaga sinna.
Hvernig eru minningarnar frá leiknum árið 1997? „Þetta eru ógleymanlegir úrslitaleikir báðir tveir og ótrúlega gaman að spila þessa leiki. Stemningin var frábær og margir á vellinum. Maður var það ungur og vitlaus að ekkert hafði of mikil áhrif á mann. Ég hafði ótrúlega gaman af þessu.“ Skömmu fyrir þann leik höfðu Eyjamenn unnið öruggan sigur á Keflvíkingum í deildinni og þóttu ansi sigurstranglegir. „Fyrir leik var verið að spá okkur 5-0 tapi og þar fram eftir götunum, þannig að pressan var engin fyrir þann leik,“ segir Jóhann en hann viðurkennir að staðan sé svipuð núna enda eru KRingar núverandi Íslandsmeistarar og nýbúnir að sigra Keflvíkinga í deildinni. „Þeir eiga að vera sigurstranglegri. Það hefur ekkert gengið neitt svakalega vel hjá okkur upp á síðkastið.“
Jóhann segir að í raun hafi ekki annað verið hægt en að láta leikinn gegn KR í deildinni hafa áhrif á sig. „Við þurftum að hvíla menn og það er ekkert hægt að neita því að þetta hafði áhrif. Leikurinn á laugardaginn verður allt öðruvísi þegar allir eru komnir inn í liðið og spennustigið verður miklu hærra, það verður allt öðruvísi stemning.“
Bikarhafarnir árið 1997 voru sælla minninga með aflitað hár sem vakti mikla lukku. Jóhann segist ekki vera tilbúinn að mæta svoleiðis í leikinn þrátt fyrir að hafa lofað því í vor. „Ég var búinn að lofa því að aflita á mér hárið ef við kæmust í úrslitaleikinn, en ég held að það verði ekki,“ segir Jóhann kíminn. „Í fyrri leiknum gegn ÍBV vorum við með litað rautt skegg þannig að ég ætla að fá að spila einn úrslitaleik í bikarnum þokkalega eðlilegur í útliti,“ bætir Jóhann við og hlær. „Ég hugsa að ég sleppi því en þó er aldrei að vita.“
Kominn tími á bikarinn heim
Margir leikmanna Keflavíkur eru að fara að spila sinn stærsta leik á ferlinum. Jóhann hvetur þá til þess að njóta hverrar mínútu á vellinum á laugardag. „Þeir eiga bara að njóta þess að spila fótbolta fyrir framan fjölda stuðningsmanna okkar. Aðalatriðið er að vera í núinu en ekki vera að spá í fortíð eða framtíð. Þetta gerist ekkert á hverjum degi og því er um að gera að gefa allt í þetta.“ Jóhann segir fólk í Reykjanesbæ þegar vera orðið spennt og hann heyrir mikið talað um leikinn. „Það er gaman og ég efast ekki um að að Keflvíkingar fjölmenni á völlinn. Það er kominn tími á bikarinn heim,“ segir Jóhann að lokum.
Jóhann í fyrri leiknum 1997 gegn ÍBV.
Veglega umfjöllun um bikarúrslitin má finna í Víkurfréttum í dag.