Ljónin rifu Vesturbæinga í sig - Myndir
Frábær fyrri hálfleikur gerði útslagið
Það eru Njarðvíkingar sem halda sér við hlið toppliðanna í Domino’s deild karla í körfubolta eftir að þeir kafsigldu KR-inga í Ljónagryfjunni í kvöld 85-67. Liðin höfðu bæði tapað aðeins einum leik fyrir viðureign kvöldins og því um toppslag að ræða. Segja má að leikurinn hafi klárast í fyrri hálfleik en lokatölurnar gefa varla rétta mynd af yfirburðum Njarðvíkinga í leiknum.
Njarðvíkingar léku á alls oddi í fyrri hálfleik og fengu framlag frá nánast öllum sínum mönnum. Þegar annar leikhluti var hálfnaður kom Maciek Njarðvík í 20 stiga forystu, 44-24, með þriggja stiga skoti. Vörn og sókn að dansa saman hjá grænum og þeirra besti hálfleikur á tímabilinu staðreynd.
KR-ingar skoruðu aðeins 10 stig í 2. leikhluta og munurinn fór mest í 27 stig en munurinn var 25 stig þegar gengið var til búningsherbergja, staðan 52-27 í hálfleik.
Strákanir úr Vesturbænum voru gjörsamlega heillum horfnir ekki líklegir til afreka en verulega fór að draga úr stigaskori beggja liða í síðari hálfleik
Liðsheildin var góð hjá Njarðvíkingum og stigaskorið dreifðist vel eftir því. Vörnin var glimrandi góð enda er það sjaldséð að halda fimmföldum meisturum KR undir 70 stigum, en fyrir leikinn höfðu þeir minnst skorað 79 stig gegn Keflvíkingum á tímabilinu.
Mario var með 24 stig og lék best Njarðvíkinga í kvöld. Maciek skilaði 17 stigum og Jeb Ivey 16.
VF myndir/Páll Orri.
Kristinn Pálsson sendir boltann inn í teig.
Njarðvíkingar fagna sigri og þakka stuðningsmönnum sínum fyrir leikinn.
Jón Arnór Sverrisson gerir atlögu að körfunni.
KR-ingar sköpuðu ekki mikla hættu í leiknum en áttu fína troðslu í 4. leikhluta.
Jeb Ivy var með 16 stig í leiknum og hér leggur hann niður auðveld tvö stig.
Njarðvíkingurinn Þorbergur Jónsson átti gott samstarf með Svala og Rikka G lýsendum leiksins.