Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Ljónagryfjan yfirgefin  fyrir rúmbetri Stapagryfju
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 3. október 2024 kl. 07:00

Ljónagryfjan yfirgefin fyrir rúmbetri Stapagryfju

„Ég hafði hugsað mér að taka mér pásu eftir síðasta tímabil en þegar kallið kom frá karlaliði Njarðvíkur var það of gott tækifæri að grípa ekki traustatökum,“ segir nýráðinn þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í Bónusdeild karla í körfuknattleik, Rúnar Ingi Erlingsson. Rúnar var búinn að vera í sex ár kvennamegin, þar af í fjögur ár sem aðalþjálfari og fær það hlutverk að leiða Njarðvíkinga á nýjar slóðir en eftir margra áratuga sigursæla veru í Ljónagryfjunni, munu grænu ljónin færa sig í Innri-Njarðvík og leika heimaleiki sína í glænýju íþróttahúsi við Stapaskóla, Stapagryfjunni.

Körfubolti er alltaf körfubolti, hvort sem börn, karlar eða konur eru þjálfaðar.

„Fyrir utan að karlar hlaupa örlítið hraðar og hoppa aðeins hærra, þá er þetta keimlíkt og ég mun koma með svipaða hugmyndafræði að karlaborðinu eins og ég var með undanfarin ár við kvennaborðið. Þjálfarinn þarf alltaf að aðlaga sig leikmannahópnum, ólíkt þjálfara í háskólaboltanum í Bandaríkjunum t.d. en þar er algengt að sami þjálfarinn sé svo áratugum skiptir og hann getur valið úr fjölda leikmanna á hverju ári sem passa inn í hans hugmyndafræði. Við þjálfararnir á Íslandi búum ekki alveg eins vel og þurfum að vinna með það sem við fáum upp í hendurnar. Ég mun pottþétt nota sumt af því sem ég notaði í fyrra með kvennaliðið og annað verður nýtt. Það er alltaf gaman að takast á við nýja spennandi hluti, ég hlakka til að koma með mína hugmyndafræði að borðinu en ég er búinn að vera í öllum hlutverkum má segja hjá Njarðvíkurliðinu, byrjaði sem vatnsberi tíu ára gamall, sá um ritaraborðið, tölfræðina, var nýliði í liðinu, var aldursforseti og fyrirliði og var aðstoðarmaður Daníels Guðna Guðmundssonar árið 2017 til 2018, aðalþjálfarastaðan var það eina sem ég átti eftir fyrir utan auðvitað stjórnarhlutverkin en ég læt þau bíða betri tíma.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Troðfullt á fyrsta heimaleiknum?

Eins og hjá öðrum liðum eru breytingar á Njarðvíkurliðinu fyrir komandi tímabil.

„Við missum Þorvald Árnason, hann fer í sitt gamla félag, KR og Elías Bjarki Pálsson fór til Bandaríkjanna í nám. Það munar um minna í þessum tveimur leikmönnum, báðir hávaxnir bakverðir og voru báðir byrjunarliðsmenn um tíma. Í staðinn hef ég fengið þrjá efnilega stráka, tvo frá Fjölni og einn Íslending sem bjó í Noregi og svo njótum við þess að hafa Veigar Pál Alexandersson frá upphafi en hann bættist í hópinn um síðustu áramót og óx ásmegin allan tímann. Sömuleiðis bætist Isaiah Coddon í hópinn en hann er bandarískur en leikur sem Íslendingur, hann hefur leikið með Skallagrími, Haukum og síðast með Álftanesi. Svo má ekki gleyma fjölmörgum ungum og efnilegum Njarðvíkingum sem koma upp í meistaraflokkshópinn.

Ég ákvað að skipta um Bandaríkjamann síðan í fyrra en hitti ekki beint í mark í fyrstu atrennu, ég ákvað að gera breytingu fyrir stuttu og bind vonir við að Khalil Shabazz muni reynast happafengur, hann gerði góða hluti með Balikeshir í tyrknesku B-deildinni í fyrra og var með sautján stig og sex stoðsendingar í leik. Hinir erlendu leikmennir frá síðasta tímabili verða allir áfram.

Deildin í ár verður gríðarlega sterk, Valsmenn og Stólarnir verða sterkir og í raun bara öll lið held ég. Okkar væntingar til tímabilsins eru eins og venjulega, við Njarðvíkingar þekkjum ekkert annað en ætla okkur að vinna titla. Við erum að vinna með minni fjármuni en mörg lið en það breytir því ekki að við ætlum okkur að ná árangri.

Ég hafði hugsað mér að taka mér pásu eftir síðasta tímabil en að fá að leiða karlaliðið inn í nýja höll var of gott tækifæri. Auðvitað verður erfitt að yfirgefa Ljónagryfjuna, það mun taka einhvern tíma að finna sama takt á nýjum stað en það er undir okkur komið hvernig við nálgumst það verkefni. Ég get ekki beðið eftir fyrsta heimaleiknum sem verður laugardagskvöldið 12. október kl. 19, ég vil sjá húsið troðfullt og þetta verði alvöru menningarviðburður í Innri-Njarðvík,“ sagði Rúnar Ingi að lokum.